Töpuðu 30 þúsund krónum á hverjum farþega

Á veturna tapa flugfélög vanalega peningum og Play er þar engin undantekning.

Þota Play tekur á loft frá Stansted flugvelli í London. Mynd: London Stansted

Afkoma Play á fyrsta fjórðungi ársins litast af áhrifum ómíkrón-afbrigðisins og stríðsins í Úkraínu samkvæmt því sem segir í tilkynningu. Þar kemur fram að rekstrartap (Ebit) Play nam 1,7 milljarði króna á þessu tímabili eða rétt um 30 þúsund krónum á hvern farþega. Til samanburðar var rekstrartap Icelandair 7,5 milljarðar króna sem jafngildir tæpum 18 þúsund krónum á hvern farþega fyrstu þrjá mánuði ársins.

„Á fyrsta ársfjórðungi var helsta áherslan á að skala starfsemina upp í aðdraganda sumaráætlunarinnar og tengiflugsleiðakerfisins sem fól meðal annars í sér að ráða og þjálfa nýtt starfsfólk og gera ráðstafanir um að bæta við flotann. Við erum alveg örugg á því að við séum að auka framboð á hárréttum tíma þar sem eftirspurn fer nú ört vaxandi á mörkuðum okkar,“ skrifar Birgir Jónsson, forstjóri Play, í tilkynningu.

Að flugfélög séu rekin með tapi yfir veturinn er alvanalegt því það er á sumrin sem reksturinn er almennt réttum megin við núllið. Forstjóri Play gerir ráð fyrir að rekstrarafkoman á síðari hluta þessa árs verði jákvæð í takt við lækkandi einingakostnað, að frátöldum eldsneytiskostnaði, og auknum umsvifum.

Kaup á þotueldsneyti vegur þungt í rekstri flugfélaga og sérstaklega núna þegar olíuverð er hærra en það hefur verið um langt skeið. Play hefur af þeim sökum tekið upp svokallaðar olíuvarnir þar sem félagið festir verð á ákveðnum hluta af eldsneytisnotkuninni fram í tímann. Þessi samningur er gerður við Skeljung en segja má að í svona viðskiptum tapi annar aðilinn á meðan hinn græðir. Nema olíuverðið standi í raun í stað.

Í lok mars nam handbært fé Play um 5,4 milljörðum króna en til samanburðar og hefur upphæðin lækkað um 1,3 milljarð króna frá áramótum. Hafa ber í huga að fyrirframgreiddir flugmiðar eru hluti af þessari upphæðum.