Boða Ameríkuflug frá Berlín

Frá og með sumarlokum munu þotur Norse Atlantic fljúga til Bandaríkjanna frá Ósló, London og Berlín.

Boeing Dreamliner þotur Norse Atlantic munu fljúga daglega milli Berlínar og New York. Mynd: Norse

Þrátt fyrir að vera höfuðborg Þýskalands þá er framboð á flugi frá Berlín til annarra heimsálfa merkilega lítið. Þotur Lufthansa, stærsta flugfélags Þýskalands, fljúga til að mynda eingöngu til Ameríku, Asíu og Afríku frá Frankfurt og Munchen. Svona hefur þetta í raun verið síðan Airberlin varð gjaldþrota fyrir fimm árum síðan

Andri Már Ingólfsson var einn þeirra sem sá tækifæri í þessari stöðu fyrir flugfélagið sitt, Primera Air, og hóf sölu á farmiðum til New York, Boston og Toronto frá Berlín haustið 2018. Primera Air varð hins vegar gjaldþrota stuttu síðar.

Nú ætla forsvarsmenn hins nýja norska flugfélags, Norse Atlantic, að freista gæfunnar í Berlín með daglegu flugi til New York og þremur ferðum í viku til Los Angeles. Um þessi áform var kynnt í gær og fyrsta ferð er á dagskrá þann 17. ágúst.

Fyrirvarinn er því stuttur og fargjöldin lág í mörgum tilfellum. En segja má að með þessu nýjasta útspili Norse þá fái Icelandair og Play aukna samkeppni í flugi milli Berlínar og New York. Bæði félög eru nefnilega með tíðar ferðir til Berlínar og líka til New York en farþegar félaganna þurfa þó að millilenda á Keflavíkurflugvelli. Þeir sem fara með Norse komast alla leið í einu.