Fá heimild fyrir lengri greiðslustöðvun

airportexpress
Allrahanda Gray Line heldur úti sætaferðum frá Keflavíkurflugvelli í nafni Airport Express. Mynd: Allrahanda Gray Line

Þegar heimsfaraldurinn hófst samþykkti Alþingi lög um greiðsluskjól fyrir ferðaþjónustufyrirtæki vegna ástandsins. Þetta nýja úrræði nýtti Allrahanda Gray Line, eitt stærsta hópbifreiðafyrirtæki landsins, sér en greiðsluskjólinu lauk síðastliðið sumar. Síðan þá hafa forsvarsmenn fyrirtækisins leitað eftir heimild til nauðasamninga en ekki fengið samþykki fyrir því hjá helstu kröfuhöfum.

Fyrirtækinu var veitt leyfi til greiðslustöðvunar í byrjun apríl og á mánudaginn var heimildin framlengd til þriðjudagsins 7. júní. Þetta kemur fram í tilkynningu til kröfuhafa.

Þar segir jafnframt að ætlunin sé að leggja fram beiðni um leyfi til að leita nauðasamninga áður en að fresturinn rennur út í næstu viku. Þetta er í samræmi við það sem kröfuhöfum hefur áður verið kynnt. En stærstu félögin í þeim hópi eru Landsbankinn, Isavia og N1.