„Fæstir átta sig á hvernig hvalirnir eru drepnir“

Meðal þeirra sem fylgjast grannt með hvalveiðum okkar er Arne Feuerhahn, talsmaður Hard to Port, en það er þýskur félagsskapur sem einfaldlega vill stöðva hvalveiðar í atvinnuskyni við Ísland.

Arne Feuerhahn, Hard to Port
Arne Feuerhahn fylgist með hvalveiðum okkar og sendir myndir og frásagnir um heiminn. Mynd: Óðinn Jónsson

Einn þeirra sem fylgdust með skipi Hvals hf. færa langreyði að landi í Hvalfirði fyrr í vikunni var þýski aðgerðasinninn Arne Feuerhahn frá Flensborg í Þýskalandi. Hann sendi dróna á loft til að mynda atburðarásina – hvernig hvalsskrokkurinn litaði sjóinn blóði sínu á leið sinni í hendur flensara Kristjáns Loftssonar.

Það er dapurlegt að fylgjast með því hvernig þessi auðugi maður heldur áfram frístundastarfi sínu – að drepa tilfinninganæmar og mikilvægar sjávarskepnur á grimmilegan hátt að þarflausu,“

segir Arne Feuerhahn, og lýsir í tilkynningu frá Hard to Port stálskutlunum þungu og beittu sem tvö veiðiskip Hvals hf. eru búin. „Þegar skutlinum er skotið í hvali er sprengihleðsla virkjuð. Hún á að tryggja að dýrið drepist strax. Rannsóknir sýni hinsvegar að sumir hvalanna þjáist í allt að 15 mínútur áður en þeir drepast.

„Flestir á Íslandi vita af hvalveiðunum en fæstir hvernig hvalirnir eru veiddir. Ég er þeirrar skoðunar að fylgjast þurfi með þessu athæfi, skrásetja það, og gera fólki sýnilegt. Það er án efa óþægilegt að horfa á hval veiddan en það er mikilvægur hluti þess að tryggja heiðarlega umræðu um framtíð hvalveiða,“ segir Feuerhahn.

Fleiri aðgerðasinnar en Þjóðverjinn Arne Feuerhahn fylgjast með hvalveiðum Íslendinga í sumar og senda fjölmiðlum vítt og breitt frásagnir og myndir. Þegar hafa nokkrir áhrifamiklir fjölmiðlar birt umfjöllun um hvalveiðarnar – og munu halda því áfram.