Farþegar sem hegða sér illa

„Hátt verð á flugmiðum, langar biðraðir á flugvöllum, frestanir og niðurfellingar á flugferðum eru ekki einu streituvaldarnir sem mæta farþegum nú þegar umferðin er að komast á sama stig og fyrir heimsfaraldurinn. Truflandi og ósæmileg hegðun farþega er enn til staðar og verður meira áberandi í fullum vélunum.”

Eitthvað á þessa leið hefst ferðadálkur í bandaríska stórblaðinu Wall Street Journal. Því er líst hvernig farþegar teygi bera fætur yfir í næstu sæti, horfi á kvikmyndir í tölvu án heyrnartóla, rekist harkalega utan í sæti – eða sýni nærstöddum óvirðingu með því að skyrpa út úr sér því sem viðkomandi hefur nagað í burtu af nöglum og fingrum. Bent er á í þessum pistli í WSJ að á Covid-tímanum hafi góðu heilli dregið úr þessu nagi og skyrpingum af því að allir voru með grímur. 

Það reynir auðvitað frekar en áður á friðhelgi eða persónuleg mörk þegar sætisröðum er fjölgað í flugvélum til að auka nýtingu. Fótarými minnkar og þolgæði gagnvart frávikum í hegðun sessunauta sömuleiðis. Minnsta hreyfing sessunautar, eða þeirra sem sitja í röðinni fyrir framan eða aftan, getur verið til ama. Af umræddum ferðapsitli í WSJ má sjá að mikil og vaxandi gremja er meðal ferðalanga vegna ónærgætni eða tillitsleysi sessunauta og ferðafélaga.

Vitnað er í  Shawn Kathleen, fyrrverandi flugfreyju, sem heldur úti vinsælum reikningi Passenger Shaming, eða Farþegasmánun, á Instagram og Facebook, þar sem sagðar eru sögur og birtar vandræðalegar myndir af furðulegum uppátækjum í flugferðum. Það er eins og fólk telji að það megi bara gera allt af því að það hefur keypt flugmiða, segir í pistlinum.