Fjölga í framkvæmdastjórn

Sonja Arnórsdóttir er nýr framkvæmdastjóri hjá Play. MYND: PLAY

Sonja Arnórsdóttir sem verið hefur forstöðumaður tekjustýringar hjá Play frá árinu 2019 verður nú framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála flugflugfélagsins. Þeirri stöðu gegndi áður Georg Haraldsson sem verður framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs. Þar með fjölgar í framkvæmdastjórn Play og sitja þar sjö manns í dag en til samanburðar eru níu í framkvæmdastjórn Icelandair.

Samkvæmt svari frá Play þá mun Sonja áfram fara fyrir tekjustýringunni samhliða nýju verkefnunum.

Þetta eru ekki einu starfsmannabreytingarnar á skrifstofum Play því Rakel Eva Sævarsdóttir, forstöðumaður sjálfbærni- og samfélagsábyrgðar, hefur ráðið sig annað. Það mun koma í ljós á næstu dögum hver tekur við verkefnum hennar. En algengt er að upplýsingafulltrúar ferðaþjónustufyrirtækja leiði þessa vinnu. Þannig er því til að mynda háttað hjá Icelandair.