Fjórar Max þotur af lagernum

Forstjóri Icelandair segir að félagið hafi fengið góð kjör.

Max þota Icelandair við flugvöllinn í Denver í Bandaríkjunum, Mynd: Denver Airport

Icelandair hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á fjórum Boeing 737 Max þotum sem afhentar verða í haust. Ekki kemur fram í tilkynningu hvort þær eru af gerðinni Max8 eða Max9 eða blanda af hvoru tveggja.

Flugvélarnar fjórar eru framleiddar árið 2018 og munu allar vera hluti af þeim lager af Max vélum sem Boeing sat uppi með eftir að þotur af þessari gerð voru kyrrsettar í mars árið 2019 samkvæmt frétt Flight Global.

Kyrrsetningin stóð yfir í nærri tvö ár og þeim tíma var fjölda kaupsamninga sagt upp og eins fóru flugfélög í þrot sem áttu bókaðar vélar. Eitt þeirra er Primera Air, flugfélag Andra Más Ingólfssonar, sem hafði pantar tuttugu eintök af Max9 áður en félagið fór á hausinn haustið 2018.

Í flota Icelandair í dag eru átta Max8 vélar og fjórar Max9 og til viðtóar hefur félagið leigt tvær af fyrrnefndu gerðinni sem koma til landsins á næstunni.

Með samningi dagsins er útlit fyrir að átján Max þotur verði flota Icelandair þegar áætlun næsta vetrar hefst en til samanburðar er félagið með þrettán Boeing 757 þotur.

„Það er ánægjulegt að halda áfram að fjölga Boeing 737 Max vélum í flotanum okkar á góðum kjörum. Þær eru af nýrri kynslóð umhverfisvænni flugvéla og því mikilvægur þáttur í að draga úr kolefnislosun í starfsemi okkar. Við höfum aukið starfsemina jafnt og þétt eftir heimsfaraldurinn og höldum nú úti mjög öflugu leiðakerfi sem tengir Evrópu og Norður-Ameríku í gegnum Ísland. Í sumar fljúgum við í beinu flugi til 44 áfangastaða erlendis, allt að fimm sinnum á dag. Þessi viðbót við flotann gefur okkur tækifæri til þess að auka þjónustuna enn frekar með því að bæta við áfangastöðum og auka tíðnina á þá staði sem við fljúgum til nú þegar,“ skrifar Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.