Flogið framhjá Rússlandi

Það eru litlar líkur á að flogin verði skemmsta leið frá Vestur-Evrópu til Japans, Kína og annarra Austur-Asíulanda á næstu árum, ef spádómar fyrrverandi forstjóra British Airways, Willie Walsh, rætast. Norska blaðið Dagens Næringsliv ræðir við hann.

SAS í Asíuflugi
Flugvél SAS yfir Síberíu Mynd: Óðinn Jónsson

Á ráðstefnu forystufólks í flugheiminum sem haldin var í Doha í Katar nú á dögunum var stríðið í Úkraínu og áhrif þess á alþjóðaflugið helsta umræðuefnið. Stríðið veldur því að evrópsk flugfélög neyðast til að taka á sig mikinn krók suður fyrir rússneska lofthelgi á leið til Austur-Asíu. Þetta er veruleikinn þegar opnað verður að nýju fyrir komu ferðafólks til Japans og Kína. Ef flogið er frá Frankfurt til Tokyo er flugtíminn tveimur stundum lengri en áður og því fylgir stóraukinn eldsneytiskostnaður. Raunar er þetta ekki mikil breyting á heildarkostnaði því Rússar innheimtu há gjöld af flugfélögum sem fóru um lofthelgi þeirra, sagði Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa, í Doha.

Willie Walsh var um árabil forstjóri British Airways en hætti fyrir tveimur árum og er nú yfirmaður IATA og leiddi umræður um framtíðarhorfur í greininni á ráðstefnunni í Doha. Hann býst við hægri endurheimt í fluginu frá Evrópu til Kína, sem mun hægt og bítandi opnast að nýju eftir því sem omikron-afbrigðið slakar tökin. Líklega verði umferðin fyrst um sinn þó aðeins 20-40 prósent af því sem hún var fyrir heimsfaraldurinn. Þá breytir ekki öllu þó að lofthelgi Rússlands sé lokuð, segir Walsh. Öðru máli gegni ef markaðsaðstæður komast aftur í lag.

Aukinn kostnaður er eins og áður segir ekki endilega helsta hindrunin í Asíufluginu á meðan Rússland er lokað heldur þrengslin sem verða á skemmstu leið suður fyrir lofthelgi þess. Forstjóri Lufthansa segir að á endanum þurfi einhver flugfélög að fljúga enn lengri leið. Þetta verði ekki vandamál ef Kína opnist hægt og rólega, eins og hann býst við að verði raunin, en um Japan gegni öðru máli. Þar er allt að opnast – fyrir alla sem þangað komast.

Það verður ekki auðvelt fyrir norræna flugfélagið SAS að uppfylla metnaðarfull markmið um Asíuflug á sama tíma og það berst fyrir lífi sínu. Nú flýgur SAS einu sinni í viku milli Kaupmannahafnar og Sjanghæ með fragt og er flugleiðin tveimur og hálfum tíma lengri en fyrir stríðið í Úkraínu. Anko van der Werff, forstjóri SAS, fór yfir stöðu og horfur í Doha. Sagði hann mikla óvissu um eftirspurn í Kína og Tókýóflugið reyni mjög á getu félagsins. Ákvörðun um það yrði tekin síðar í sumar. Vonandi verði það að veruleika og að allt komist aftur í samt lag. SAS er með 14 flugvélar til lengri flugferða af gerðinni Airbus A330 og A350 og segir forstjórinn að vélarnar séu of margar eftir að lofthelgi Rússands lokaðist. Hann reynir nú að skila flugvélaleigunum einhverjum þeirra á meðan þetta ástand varir.

Á meðal þess sem forstjórar flugélaganna þurftu að svara fyrir á ráðstefnunni í Doha voru seinkanir og ringulreið á flugvöllum í sumar. Carsten Spohr viðurkennir að vinnudeilur skýri ástandið að hluta og bar saman réttindi launafólks í Evrópu og Katar. „Við Evrópubúar erum stolt af því að búa ekki við sömu samkeppnisaðstæður og aðrir þegar kemur að vinnumarkaðsmálum. Allir eiga rétt á að fara í verkfall. En ef þú ferð í verkfall í Doha er ekki líklegt að þú haldir vinnunni.“

Spohr telur samt að flugmannaverkfall sem ógnar samkeppnismöguleikum SAS frá næstu mánaðamótum sé alvarleg mistök. Hann segist skilja þá miklu óánægju sem grafið hafi um sig meðal starfsfólks á meðan heimsfaraldurinn geisaði. Það hafi búið við skert kjör og mikla óvissu en ef flugheiminum eigi að takast að endurvinna traust flugfarþega sé þetta ekki vel valin tímasetning fyrir lamandi verkfall.