Bjart er yfir ferðabændum á Suðurlandi, allt komið í fullan gang og vel bókað hjá flestum fram á haust. Þannig er staðan á Hótel Smyrlabjörgum í Suðursveit sem Laufey Helgadóttir og Sigurbjörn Karlsson eiga og hafa rekið frá 1990. Þau byrjuðu með sex herbergi en í dag eru þau 68. „Ferðaþjónustan hefur orðið til þess að mikið líf er nú í sveitinni," segir Laufey sem fluttist að Smyrlabjörgum frá Hornafirði og var um árabil ljósmóðir þarna í sveitinni. Mikil umferð ferðamanna er um svæðið árið um kring. Þar ræður aðdráttarafl jöklanna mestu.