Fresta verkfalli fram á laugardag

Samningaviðræður flugmanna og stjórnenda SAS halda áfram. Ef fjárhagslega endurskipulagning SAS heppnast þá verður norska ríkið á ný hluthafi í félaginu.

Farþegar SAS á Kaupmannahafnarflugvelli munu komast á áfangastað í dag. Áfram ríkir þó óvissa um hvað gerist á laugardaginn. Mynd: CPH

Flugmenn SAS seinkuðu seint í gærkvöld boðuðu verkfalli sínu um þrjá sólarhringa. Þar með fljúga þotur félagsins samkvæmt áætlun í dag og meðal annars hingað til lands frá bæði Ósló og Kaupmannahöfn.

Samningaviðræður milli forsvarsfólk flugmanna og stjórnenda SAS halda því áfram í Stokkhólmi fram á föstudag. Ef ekki nást samningar mun stór hluti flugmanna leggja niður störf á laugardaginn.

SAS hefur áður gefið út að verkfallið myndi hafa áhrif á um helming flugferða félagsins eða um 200 til 250 brottfarir á dag. Ferðaplön um 20 til 30 þúsund farþega myndu því riðlast á degi hverjum.

Viðræður SAS við samtök flugmanna í Noregi, Svíþjóð og Danmörku hafa staðið yfir frá því í lok síðasta árs en stjórnendur flugfélagsins vinna nú að fjárhagslegri endurskipulagningu. Breytt kjör flugmanna eru hluti af þeirri áætlun en til stendur að auka vinnuskyldu flugmanna og eins færa ráðningasamninga í ný dótturfélög. Þessu hafa flugmennirnir alfarið neitað.

Forstjóri SAS, hollendingur Anko van der Werff, segir félagið hins vegar róa lífróður. Launakjör áhafna verði að taka breytingum og eins þurfi kröfuhafar að afskrifa skuldir. Félagið vill líka losna við breiðþotur sem lítið gagn er af þar sem flugleiðin yfir Rússland til Asíu er lokuð.

Stærstu hluthafar SAS í dag eru sænska og danska ríkið sem hvort um sig á um 22 prósent hlut í þessu stærsta flugfélagi Norðurlanda. Til viðbótar eru ríkissjóðir landanna tveggja meðal stærstu kröfuhafa en þeim skuldum verður breytt í nýtt hlutafé ef fjárhagslega endurskipulagning SAS heppnast. Svíar ætla hins vegar ekki að setja meira fé í rekstur flugfélagsins en Danir eru reiðubúnir til þess.

Norska ríkið seldi hlut sinn í SAS sumarið 2018 en í gær gáfu ráðamenn þar út að vilji væri til að breyta kröfum á flugfélagið í hlutafé. Norðmenn ætla þó ekki að setja nýtt fé í reksturinn.