Fyrsta íslenska „Varðan“

Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra tóku þátt í að afhjúpa fyrstu vörðuna. MYND: STJÓRNARRÁÐIÐ

Þingvellir fengu í gær viðurkenninguna „Varða“ og þar með er umsjónarfólk þjóðgarðsins skuldbundið til að vera til fyrirmyndar við stjórnun og umsjón svæðisins og horfa til sjálfbærni á öllum sviðum. Þetta kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Þar segir jafnframt að „Vörður“ séu merkisstaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- og/eða heimsvísu. Og jafnframt vel þekktir, hluti af ímynd landsins, fjölsóttir og hægt að heimsækja þá allt árið um kring.

„Til að fá afnot af vörumerkinu Vörðu þurfa umsjónaraðilar staðar að sýna fram á langtímaskuldbindingu til þess að framfylgja skilgreindum viðmiðum við stjórnun og skipulagningu hvað varðar m.a. aðgengi, gagnasöfnun, fræðslu, umhverfisvernd,sjálfbærni, yfirbragð og öryggi,“ segir á vef Stjórnarráðsins.

Sem stendur eru Gullfoss, Geysir og Jökulsárlón í einskonar prufuferli varðandi Vörðu-viðurkenningu en þessir þrír staðir eru, líkt og Þingvellir, í umsjón ríkisins. Stefnt er að því að opna á að fleiri staðir, óháð eignarhaldi eða umsjón, geti komið í ferli frá næstu áramótum.