Heathrow fær ekki að hækka gjöldin

Horfur eru á að bresk flugmálayfirvöld heimili ekki Heathrow-flugvelli að hækka flugvallargjöldin jafn mikið og stjórnendur flugvallarins telja nauðsynlegt til að viðhalda nauðsynlegu þjónustustigi vellinum og tryggja góða upplifun farþega.

Yfirvöld á Heathrow vilja bæta upplifun farþega - en það kostar hærri gjöld.

Bresk yfirvöld neyðast til að láta undan þrýstingi flugfélaga og draga úr fyrirhuguðum hækkunum lendingargjalda á Heathrow-flugvelli næstu fjögur árin. Stóru flugfélögin British Airways og Virgin hafa í marga mánuði átt í harðri deilu við flugvallaryfirvöld um gjaldtökuna. Þótt Heathrow-flugvöllur sé einkarekinn er hann háður hinu opinbera varðandi flugvallargjöld.

Af hálfu Heathrow-flugvallar var því haldið fram að tvöfalda þyrfti gjaldtöku til að standa straum af nauðsynlegum lagfæringum á flugvellinum, bæta þjónustu við viðskiptavini og laða um leið að fjárfesta. Flugfélögin snérust hart gegn frekari gjaldtöku og sögðu Heathrow þegar dýrasta flugvöll heims. 

Bresk flugmálayfirvöld sögðu að miðað við þær verðlagshorfur sem spáð væri myndi hámarksgjald á hvern farþega lækka úr 30 í 26 pund en ákvörðun um þetta hefur ekki verið tekin. Áður hafði verið búist við að gjaldið hækkaði í á bilinu 24 til 34 pund. Fyrir tveimur árum var gjaldið um 22 pund á farþega. 

Af hálfu Heathrow-flugvallar er því haldið fram að flugmálayfirvöld vanmeti tekjuþörfina til að standa undir góðri þjónustu við farþega. Ákvörðun flugmálayfirvalda um að draga úr hækkun muni minnka fjárfestingar í þjónustu og leiða til verri upplifunar farþega á Heathrow. 

Flugmálayfirvöldin bresku búast við að tilkynna lokaákvörðun sína um flugvallargjöldin í haust, samkvæmt frétt Reuters-fréttastofunnar.