Heimurinn horfir á

Ekki hefur verið hlustað á ferðaþjónustuna og umhverfisverndarfólk um allan heim. Stórhvalaveiðar eru hafnar enn eina ferðina við Ísland.

Hvalur í Hvalfirði
Ferðafólk fylgist með hval dregnum á land í gær Mynd: Óðinn Jónsson

Óviðkomandi er bannaður aðgangur að vinnslustöð Hvals hf. í Hvalfirði en forvitnir ferðamenn og nokkrir félagar evrópskra náttúruverndarsamtaka standa við girðinguna og á höfðanum ofan stöðvarinnar og fylgjast í þögn með því sem fram fer, hvernig risavaxinn skrokkur langreyðar er dreginn frá hlið Hvals 9 að landi og upp rennuna á vinnsluplanið. 

Langreyðar í viðkvæmri stöðu

Hvasst er og napurt miðað við að komið er fram í lok júnímánaðar og það sem þarna fer fram vekur upp dapurlega tilfinningu. Þessi glæsilega skepna verður nú brytjuð niður í þágu þröngra hagsmuna Kristjáns Loftssonar, sem fær enn eitt tækifæri til að stunda þennan furðulega veiðiskap sinn, drepa háþróuð og risavaxin spendýr við Ísland með sprengihleðslu í skutli, þrátt fyrir að fyrir því séu lítil haldbær efnahagsleg rök og þótt það stríði gegn alþjóðlegum viðmiðum um náttúruvernd. Langreyðar eru í viðkvæmri stöðu og eru af mörgum taldar í útrýmingarhættu. Þetta er næststærsta dýr jarðar, næst á eftir steypireyð, og merkilegt undur eins og aðrir hvalir: tignarlegt félagsdýr með eigið tungumál. Söngurinn getur hljómað lengi og borist víða um hafdjúpin. 

Sætleiki valdsins

Nú er Kristján Loftsson orðinn gamall maður og sér kannski fyrir endann á þessu ævilanga og spennuþrunga veiðiævintýri sínu. Síðast var fimm ára veiðileyfi Hvals hf. endurnýjað 2019. Kristján getur þess vegna veitt í sumar og aftur næsta sumar – að óbreyttu. Lýkur stórhvalaveiðum Íslendinga árið 2023? Ekki ef Kristján fær ráðið, svo er víst. Hann hefur efni á því að tapa á þessum veiðiskap. Ætla má að fyrir Kristján sé þetta nostalgísk upplifun og auðvitað tækifæri til að njóta sætleika valdsins – að halda ótrauður áfram þvert gegn vilja heimsins. Flest af þessu fólki sem andæfir virðist fara í taugarnar á eiganda Hvals hf., veruleikafirrtir vælukjóar, fólk sem veit ekki að hvalir eru hálfgerð pest í lífríkinu – afætur. Auðvitað er Kristján á villigötum. Hvalir eru einmitt mikilvægir í lífríkinu, auðga það og viðhalda því. Þetta eru dýr sem ofveidd voru um aldir en nú skilst flestu viti bornu fólki að okkur ber að vernda hvali – alveg eins og fílana og nashyrningana. 

Stríðir gegn alþjóðasamningum

Íslendingar urðu aðilar að CITES-samningnum um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu. Margir muna eflaust þegar Obama Bandaríkjaforseti biðlaði til Íslendinga um að virða samninginn og hætta hvalveiðum. Ekki var hlustað á það. Ísland heldur í fyrirvara sinn við samninginn – og Kristján veiðir enn. Stjórnvöld hafa ekki til þessa hlustað á andmæli ferðaþjónustunnar – ekki frekar en náttúruverndarfólk um allan heim. Því er iðulega vísað á bug eins og hverjum öðrum þvættingi að hvalveiðar skaði ímynd landsins, vinni gegn öllu því starfi sem unnið hefur verið á síðustu áratugum til að styrkja þá mynd af Íslandi að landið státi ekki aðeins af fagurri og auðugri náttúru heldur búi þar þjóð sem virði náttúruna, stundi aðeins sjálfbærar veiðar og skynsamlega nýtingu. Hvalveiðar árið 2022 passa ekki inn í þessa mynd.

Tóm vandræði með hvalkjötið

Hvalveiðar Kristjáns Loftssonar geta ekki talist sjálfbærar. Á árunum 2009 til 2021 var veitt á sex vertíðum. Þrisvar var veiðum frestað en auðvitað hafnar að nýju á síðasta leyfisári til að geta beðið um framlengingu. Þannig veiddi Kristján 146 hvali 2018 og fékk svo auðvitað framlengingu árið eftir. Frá 2009 hafa 845 langreyðar verið veiddar og oftsinnis hefur Kristján verið í basli með að koma afurðunum á markað í Japan. Hvorugt stóru íslensku skipafélaganna, Eimskip eða Samskip, hefur treyst sér til að annast flutninginn af viðskiptaástæðum og stórar evrópskar umskipunarhafnir eins og Rotterdam og Hamborg eru Loftssyni lokaðar á grundvelli CITES-samningsins. Hefur kjöt verið þá sent til baka og því umpakkað. Skip hafa verið tekin á leigu til flutningsins langar leiðir til að forðast truflanir frá Grænfriðungum, kjöt hefur verið flutt með járnbrautarlestum þvert um meginlönd, og nú síðast norðurheimskautsleiðina. Sú leið er lokuð á meðan Rússar heyja stríð. Við hafa bæst margskonar vandræði við afgreiðslu kjötsins í Japan.

Ekki hlustað á ferðaþjónustuna

Það er auðvitað ekki heil brú í þessu. Það vita allir en sumir eru bara ekki tilbúnir að kyngja því. Ferðaþjónustan er ná sér á strik eftir erfið ár í heimsfaraldri. Það vantar þó ekki vandamálin þar – eða áskoranirnar, eins og er í tísku að segja. Enn heftir Ómíkron-afbrigðið för kínverskra ferðamanna til landsins og við bætist lokun rússneskrar lofthelgi. Innrás Rússa í Úkraínu og stríðsrekstur þeirra þar hefur valdið verðhækkunum sem ekki sér fyrir endann á. Flugheimurinn allur tekst á við þetta og að auki er ólga meðal starfsmanna flugfélaga víða, fólks sem sætti tekjuskerðingu í heimsfaraldrinum og vill nú fá hana bætta. Heimsfaraldurinn breytti líka viðhorfi margra til vinnu. Víða vantar starfsfólk. En allt þetta dugar ekki til að íslensk stjórnvöld reyndu að stöðva Kristján og hvalveiðarnar með einhverjum hætti. Nei, hann verður að fá að ljúka þessu hvað sem á dynur – og íslensk ferðaþjónusta verður að sætta sig við það.

Þú færð aðgang að öllu efni Túrista næstu tvo mánuði fyrir 2.000 kr. Notaðu afsláttarkóðann SUMAR2022 hér. Áskrift endurnýjast á fullu verði í framhaldinu en alltaf hægt að segja upp.