Langmesti afslátturinn fyrir þá sem kaupa sterkt

Það borgar sig að kaupa áfengið í Fríhöfninni en ekki endilega sælgætið.

frihofnin
Það á að verða dýrara að kaupa áfengi í Fríhöfninni að mati þingmanna. Mynd: Fríhöfnin

Lækka á afslátt af áfengis- og tóbaksgjaldi í Fríhöfninni samkvæmt tillögum fjármálaráðherra sem meirhluti fjárlaganefndar samþykkti í síðustu viku. Flugfarþegar verða því brátt að borga meira fyrir áfengið í komuverslun Leifsstöðvar en það eru helst Íslendingar sem þar versla. Í nýliðnum maí stóðu íslensk greiðslukort til að mynda undir 74 prósent af kortaveltunni í fríhöfnum landsins.

Og það er þeir sem kaupa sterkasta áfengið sem fá mestu afslættina í Fríhöfninni. Flaska af íslensku gini kostar þar helmingi minna en í Vínbúðunum og sænskur vodki er 60 prósent ódýrari í Leifsstöð en í öðrum áfengisverslunum svo dæmi sé tekið.

Bjór og léttvín er almennt um fjórðungi ódýrara í Fríhöfninni nema hvað afslátturinn á kampavíni er minni en af öðru víni eins og sjá má hér fyrir neðan.

Hið hagstæða verðlag í Fríhöfninni nær þó ekki í öllum tilvikum til sælgætis. Hraunbitar eru 32 prósentum dýrari í Leifsstöð en í Hagkaup og Freyju súkkulaði með djúpum er 38 prósent dýrara í flugstöðinni en í Krónunni.