Löggan þarf að ganga í störf flugvallarstarfsmanna

Forsíður nokkurra breskra blaða í gær.

Skortur á starfsfólki er víða það mikill að flugfélög og ferðaskrifstofur eiga í vandræðum við að koma viðskiptavinum sínum í loftið. Fréttir berast af eins til tveggja klukkutíma löngum biðröðum við innritunarborð og vopnaleit á flugstöðvunum í Dublin, Amsterdam og Stokkhólmi. Ástandið í Bretlandi er litlu skárra.

Breskir fjölmiðlar hafa því vart undan að flytja fréttir af alls kyns óþægindum sem farþegar verða fyrir þessa dagana vegna ástandsins. Þotur fara tómar í loftið, flugfélög fella niður ferðir í hundraða tali og stærsta ferðaskrifstofa landsins þurfti að leita til löggunnar þegar tilkynna átti farþegum, stuttu fyrir áætlaða brottför, að ekkert yrði af ferðalaginu.