Loksins not fyrir nýja flugstöð

Það verða töluverðar breytingar á Stewart flugvelli með komu Play.

Farþegar Play verða þeir fyrstu sem fara í gegnum nýja álmu á Stewart flugvelli. Mynd: Stewart International

Haustið 2019 lagði norska félagið Norwegian niður útgerð sína á Stewart flugvelli í Hudsondal og síðan þá hefur starfsemin þar eingöngu snúist um innanlandsflug. Það hafa því engin not verið fyrir nýja álmu á flugvellinum fyrir farþega í alþjóðaflugi en á því verður breyting í dag.

Seinnipartinn er nefnilega von á þotu Play til Stewart flugvallar en félagið ætlar að bjóða upp á daglegar þangað hér eftir. Farþegar íslenska félagsins verða þar með þeir fyrstu sem fara um nýju álmuna en kostnaðurinn við að reisa hana á sínum tíma nam um fimm milljörðum króna.

Koma Play til Stewart kallar á bættar samgöngur þangað frá New York borg enda um 100 kílómetrar frá Manhattan að flugstöðinni. Og frá og með deginum í dag verða í boði sérstakar sætaferðir fyrir farþega Play til og frá Stewart. Farmiði aðra leiðina kostar 22 dollara eða um 2900 krónur og tekur bílferðin um einn og hálfan klukkutíma samkvæmt heimasíðu Megabus.

Þess má geta að ennþá eru laus sæti í jómfrúarferð Play til New York í dag og kostar farið, aðra leið, 31 þúsund krónur. Farmiðinn á morgun kostar um 18 þúsund krónur.