Neyðarástand á Keflavíkurflugvelli í nótt

Vandræði komu upp vegna eldsneytis í þotu Play sem var á leið til Keflavíkurflugvallar frá Malaga á Spáni í nótt. Samkvæmt frétt RÚV var rauðu neyðarstigi lýst yfir á flugvellinum vegna ástandsins en þotan lenti heilu höldnu tuttugu mínutur í tvö í nótt. Um borð voru 105 farþegar.

Þotan sem um ræðir er tveggja ára Airbus A320 með sæti fyrir 174 farþega.

Í flota Play eru nú fimm þotur merktar flugfélaginu sjálfu og ein leiguvél sem aðeins verður nýtt út þennan mánuð. Fjórar af þessum flugvélum flugu héðan til evrópskra áfangastaða í morgun en ætlunarferð Play til Gautaborgar var aflýst.

Seinni partinn í dag eru sex brottfarir á dagskrá Play og félagið þarf þá á öllum sínum flugvélum að halda til að sú áætlun riðlist ekki.

Það hefur verið nokkuð um að ferðir til og frá Keflavíkurflugvelli hafi verið felldar niður síðustu daga. Í gær varð ekkert af ferð Wizz Air hingað frá Napólí og Air Canada hætti sömuleiðis við ferð sína til Keflavíkurflugvallar frá Toronto. Í lok síðustu viku varð Icelandair einnig að gera breytingar á sinni áætlun vegna skorts á flugvélum.