Neytendasamtökin: Verðskráin verður að halda

Hátt í sjö hundruð upphæðir er að finna í verðtöflu Play. SKJÁMYND AF HEIMASÍÐU PLAY

Sá sem bókar í dag far til Tenerife með Play eftir viku þarf að borga aukalega 5.681 krónur fyrir að innrita ferðatösku. Þetta gjald er 598 krónum hærra en hámarksverðið fyrir þjónustu ætti að vera samkvæmt gjaldskrá flugfélagsins.

Á þetta misræmi benti Túristi í gær og hafði þá eftir samskiptastjóra flugfélagsins að uppfæra ætti verðskrána og lagfæring stæði yfir. Ennþá er gamla taflan á heimasíðu flugfélagsins.

Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, segir aðspurð að fyrirtæki geti ekki hagað sér með þessum hætti.

„Það er alveg skýrt að verð má ekki vera hærra en verðskrá segir til um. Undantekning ef augljós mistök eru gerð en það á ekki við hér,“ segir Brynhildur í svari til Túrista.

Samkvæmt upplýsingum frá Play þá er ennþá unnið að uppfærslu á verðskrá flugfélagsins en verkefnið hefur tekið lengri tíma en ráðgert var vegna tæknilegra vandamála. Vonast er til að ný verðskrá verði komin á vefinn á morgun.

Þess má geta að verðtafla Play er mjög yfirgripsmikil. Þar eru nefnilega að finna 99 mismunandi verð á hinum ýmsu þjónustugjöldum. Þessi gjöld eru birt í krónum og sex erlendum gjaldmiðlum og verðtaflan inniheldur því hátt í sjö hundruð upphæðir.

Viðbót: Upplýsingum frá Play var bætt við upprunalegan texta greinarinnar.