Nóg eldsneyti á þotunni

Rauðu neyðarstigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli stuttu eftir miðnætti í nótt þegar farþegaþota Play var á leið inn til lendingar. Samkvæmt frétt RÚV tengdist atvikið eldsneyti en ekki lágu fyrir frekari upplýsingar.

Spurð nánar um aðstæður þá segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, að villuskilaboð hafi komið frá eldsneytiskerfi flugvélarinnar.

„Þetta snýr í rauninni að varaeldsneyti sem okkar ferlar gera ráð fyrir að séu um borð í vélinni þegar hún lendir. Það var nóg eldsneyti þannig við teljum fullvíst að þetta hafi verið villumelding og að allt hafi verið í lagi en erum í þessum töluðu orðum að yfirfara allt saman og rannsaka málið.“

Nadine bætir því við að þegar svona villuskilaboð koma upp þá séu eðlilegar varúðarráðstafnir gerðar og flugmennirnir tilkynna um hættustig.

„Þegar vélin var í aðflugi kom í ljós að öll kerfi störfuðu eðlilega og flugöryggi var ekki í hættu á neinum tíma. Þessi hættutikynning er þannig varúðarráðstöfnun.“

Raskanir á áætlun í dag

Tveimur brottförum Play frá Keflavíkurflugvelli var aflýst í dag. Í fyrra tilvikinu var um að ræða flug til Gautaborgar en í þá ferð átti að nota þotu sem Play fékk í síðustu viku en sú er leigð með flugmönnum. Veikindi komu upp í þeirra röðum og ekki voru aðrir til taks og því þurfti að aflýsa ferðinni með stuttum fyrirvara.

Nadine Guðrún segir að verið sé að vinna í því að koma farþegunum til Gautaborgar og það verði líklega seinna í dag.

Einnig hefur verið hætt við flug Play til Parísar um kaffileytið í dag en í þá ferð var ætlunin að fljúga þotunni sem bilaði í nótt.