Of margir farþegar og verða því að fækka ferðunum

Farþegar á leið frá Amsterdam eru beðnir um að koma ekki meira en fjórum klukkutímum fyrir brottför. Mynd: Schiphol

Það hefur ríkt örtröð á Schiphol flugvelli í Amsterdam síðustu vikur og á tímabili varð KLM, stærsta flugfélag Hollands, að taka úr sölu ferðir vegna ástandsins. Og staðan er ekkert að skána því starfsmenn flugvallarins ráða í mesta lagi við sinna sjötíu þúsund farþegum á dag eða um sextán prósent færri farþegum en lagt var upp með.

Af þeim sökum verða flugfélög að skera niður áætlanir sínar í júlí samkvæmt frétt Reuters. Með þessu vonast stjórnendur Schiphol til að gera fólki það kleift að komast í gegnum flugstöðina án þeirra vandræða sem einkennt hafa starfsemina nú í byrjun sumarvertíðar.

Hvort þessar nýju reglur muni hafa áhrif á flugferðir milli Íslands og Amsterdam á eftir að koma í ljóst. Ennþá gerir Icelandair ráð fyrir tveimur flugferðum á dag til Amsterdam og Transavia flýgur hingað fjórum sinnum í viku.