Ríflega helmingi fleiri með Play

Að jafnaði voru sjö af hverjum tíu sætum skipuð farþegum í ferðum Play í maí.

Mynd: London Stansted

Það voru nærri 57 þúsund farþegar sem nýttu sér ferðir Play í maí sem er viðbót um tuttugu þúsund farþega frá mánuðinum á undan. Aukningin nemur 55 prósentum.

Félagið jók framboðið ennþá meira eða um nærri því sjötíu af hundraði. Þessi mikla viðbót kom ekki niður á stundvísi félagsins því að jafnaði fóru þotur félagsins í loftið á réttum tíma í 87 prósent tilvika að því segir í tilkynningu.

Þessi auknu umsvif skrifast meðal annars á nýja áfangastaði en í maí bættust átta nýjar borgir við leiðakerfi Play. Í þessari viku hefur félagið svo flug til Stewart flugvallar í New York.

„Maímánuður reynist flugfélögum oft nokkur áskorun, þar sem umsvif rekstrarins hafa yfirleitt aukist töluvert fyrir sumarið án þess þó að viðskiptin sem fylgja sumarleyfum séu farin að skila sér alveg. Þess vegna erum við sérstaklega ánægð að vera í góðri stöðu á flóknum tímapunkti. Sætanýtingin er sterk og farþegafjöldi eykst og eykst. Play heldur áfram að vaxa og styrkja stöðu sína á markaðnum. Til marks um það er farþegafjöldinn í maí. Sá mánuður einn og sér var stærri en allur fyrsti ársfjórðungur 2022,“ skrifar Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins, í tilkynningu.