Rukka ennþá engan virðisaukaskatt

Skatturinn segir rútuferðir að Leifsstöð ekki vera almenningssamgöngur.

Flugrútan og rúta Airport Direct við Leifsstöð. MYND: TÚRISTI

Allt frá því í mars árið 2018 hafa þrjú fyrirtæki haldið úti reglulegum sætaferðum milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Hjá tveimur þeirra, Kynnisferðum og Allrahanda Gray Line, er 11 prósent virðisaukaskattur hluti af farmiðaverðinu en ekki hjá Airport Direct sem er í eigu Hópbíla. Forsvarsmenn þess fyrirtækis hafa litið svo á að um almenningssamgöngur sé að ræða og þar með eigi ekki að innheimta virðisaukaskatt.

Snorri Olsen, ríkisskattstjóri, sagði staðfesti hins vegar við Túrista nú í ársbyrjun að það væri niðurstaða embættisins að sætaferðir til Keflavíkurflugvallar flokkist ekki sem almenningssamgöngur. 

Nú fimm mánuðum síðar er ennþá ekki inneimtur virðisaukaskattur af sætaferðum Airport Direct. Á kvittunum sem farþegar fá stendur einfaldlega „No tax“. Hjá keppinautum fyrirtækisins er hins vegar ellefu prósent af farmiðaverðinu eyrnamerkt ríkissjóði.

Þegar spurt er um stöðu þessa máls hjá Skattinum í dag þá fást þau svör að það sé ennþá í vinnslu. Stjórnendur Hópbíla svara hins vegar ekki fyrirspurnum Túrista.

Þess má geta að auk fyrrnefndra þriggja fyrirtækja þá býður Strætó líka upp á reglulegar ferðir að Leifsstöð en þó ekki í tengslum við allar flugferðir.