Rukka meira en verðskráin segir til um

Það er ósamræmi í gjaldtökunni hjá Play.

Farþegar sem vilja sitja fremst í þotum Play ættu ekki að þurfa að borga meira en 4.600 krónur aukalega fyrir slíkt. Gjaldið getur þó verið nokkru hærra.

Farþegar á Keflavíkurflugvelli þurfa langflestum tilvikum að borga aukalega fyrir að innrita farangur og velja sér sæti. Hjá Icelandair hefur þessi gjaldtaka verið að aukast umtalsvert síðustu misseri og stjórnendur Play hækkuðu farangurs- og sætagjöldin fljótlega eftir að félagið hóf starfsemi.

Síðan þá hafa þessi gjöld verið óbreytt í Evrópuflugi Play, í það minnsta samkvæmt verðskrá sem félagið birtir á heimasíðu sinni. Þar segir að farþegar borgi í mesta lagi 5.083 krónur fyrir að innrita farangur og aldrei meira en 4.089 krónur fyrir handrangur.

Þessi gjöld geta þó verið töluvert hærri samkvæmt athugun Túrista. Farþegar á leið til Tenerife eru þannig rukkaðir allt að 5.681 kr. fyrir hverja tösku sem 12 prósent yfir hámarksverðinu sem tilgreint er á heimasíðunni. Gjaldið fyrir handfarangur getur farið nærri 500 krónum upp fyrir mörkin.

Og Play rukkar stundum meira fyrir val á sætum en verðskráin segir til um. Farþegi sem vill sitja fremst í vélinni á leiðinni til Alicante þarf að borga 5.130 krónur fyrir slíkt jafnvel þó hámarksverðið ætti í raun að vera 4.600 krónur.

Spurð um skýringar á þessu þá segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, að það eigi eftir að uppfæra verðskrána í samræmi við verðstýringu flugfélagsins og unnið sé að lagfæringu.

Farþegar Play mega samkvæmt þessu gera ráð fyrir að borga meira fyrir val á sætum og farangur en áður var.

SMELLTU HÉR TIL AÐ GERAST ÁSKRIFANDI