Sammála um uppsetningu á viðvörunarkerfi

Banaslys varð í Reynisfjöru fyrr í mánuðinum þegar alda hreif erlendan ferðamann á áttræðisaldri með sér. Mynd: Neil Cooper / Unsplash

Samráðsfundur stjórnvalda með landeigendum í Reynisfjöru fór fram í Vík í Mýrdal í gærkvöld. Þar kynntu fulltrúar Veðurstofu Íslands, Vegagerðarinnar og almannavarnadeildar lögreglunnar á Suðurlandi vinnu við gerð áhættumats fyrir Reynisfjöru og hugmyndir um uppsetningu viðvörunarkerfis í fjörunni.

„Málefnalegar umræður voru á fundinum. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að tryggja sem best öryggi ferðamanna sem heimsækja Reynisfjöru. Bæði þurfi að taka ákveðin skref í átt til bætts öryggis á svæðinu til skemmri tíma og lengri. Fundarmenn voru sammála um að ljúka uppsetningu viðvörunarkerfis í fjörunni,“ segir í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Þar segir jafnframt fundarmenn hafi ákveðið að eiga formlegt samstarf um að efla öryggi ferðamanna í Reynisfjöru. Samráðshópur taki til starfa þar sem taki þátt fulltrúar landeigenda, Veðurstofu Íslands, Vegagerðarinnar, almannavarnardeildar lögreglunnar á Suðurlandi, Landsbjargar, Mýrdalshrepps og Ferðamálastofu. Samráðshópurinn geri tímasetta aðgerðaáætlun og skili tillögum sínum til ráðherra ferðamála í síðasta lagi 30. september næstkomandi.