SAS fær ekki meira fé úr sjóðum Svía

Sænska ríkisstjórnin er sammála um að draga verulega úr ítökum sínum í stærsta flugfélagi Norðurlanda.

Karl-Petter Thorwaldsson, viðskiptaráðherra Svíþjóðar, ítrekaði á fundi sínum með blaðamönnum að sænska þingið hefði ákveðið árið 2010 að draga úr hlut sínum í SAS. Nú væri í raun komið að þeim tímapunkti. Mynd: Regering

Karl-Petter Thorwaldsson, viðskiptaráðherra Svíþjóðar, efndi til blaðamannafundar nú í morgunsárið þar sem hann greindi frá því að sænska ríkið myndi taka þátt í þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu á flugfélaginu sem nú er unnið að. Þó eingöngu með því að breyta skuldum upp á um fjóra milljarða sænskra króna í hlutafé. Upphæðin jafngildir 53 milljörðum íslenskra króna.

Ráðherrann sagði hins vegar ljóst að flugfélagið fengi ekki meira fé úr opinberum sjóðum Svía. Þar með væri óumflýjanlegt að hlutur sænska ríkisins í SAS myndi minnka í tengslum við boðaða hlutafjáraukningu síðar á þessu ári.

Í dag á sænska ríkið um 22 prósent hlut í flugfélaginu. Hlutur danska ríkisins er álíka stór en Norðmenn seldu sín hlutabréf í SAS sumarið 2018. Ekki liggur fyrir hvort Danir ætli að veita meiru fé í rekstur SAS.

Á blaðamannafundi sínum í morgun sagði Thorwaldsson viðskiptaráðherra að flugmarkaðurinn í Svíþjóð hefði breyst mikið. Nú væru þar starfandi fjöldi lágfargjaldafélaga og SAS yrði að aðlaga sig að þeirri samkeppni og þeirri staðreynd að nú ferðast færri vegna vinnu en áður. En svokallaðir viðskiptaferðalangar hafa hingað til verið verðmætasti kúnnahópurinn hjá SAS.

Líkt og Túristi hefur áður skrifað þá gengur fjárhagsleg endurskipulagning SAS ekki eingöngu út á að fá inn meira fé í reksturinn. Markmiðið er líka að fá kröfuhafa til að afskrifa hluta af lánum sínum og breyta þeim í hlutafé. Á sama tíma er lagt upp með að áhafnir félagsins taki á sig töluverðar kjaraskerðingar.