Segir flugfélögum að takmarka framboðið

Farþegi á Heathrow í London. Mynd: London Heathrow

Bresk flugfélög og ferðaskrifstofur hafa fellt niður hundruðir brottfara frá stærstu flugvöllum Bretlands síðustu daga. Í sumum tilvikum fá farþegarnir fyrst skilaboð um breytingarnar þegar út á flugvöll er komið og breska pressan hefur vart undan að flytja fréttir af þessu ástandi.

Grant Shapps, samgönguráðherra Breta, blandaði sér í umræðuna í gær og sagði nóg komið. Flugfélög og ferðaskrifstofur yrðu einfaldlega að takmarka framboð á flugmiðum við afkastagetu og hætta að selja sæti í ferðir sem líklegast verða felldar niður.

Ráðherrann bætti því við að hann ætlaði að setjast niður með forsvarsfólki ferðageirans og fara yfir stöðu mála en ljóst væri að atburðarásin síðustu daga mætti ekki endurtaka sig.

Þessar yfirlýsingar ráðherrans hafa fallið í nokkuð grýttan jarðveg meðal stjórnenda í fluggeiranum sem benda á að hluti af vandanum sé einfaldlega mannekla á flugvöllum. Farþegar komist ekki í gegnum flughafnir á skikkanlegum tíma og missi því af brottförum. Í þeim tilvikum sé ekki hægt að skella skuldinni á flugfélögin.

Á það hefur einnig verið bent að það var ákvörðun breskra ráðamanna að skylda flugfélög til að nýta að minnsta kosti 70 prósent af lendingarleyfum sínum á flugvöllum í sumar. Ef nýtingin verður minni þá eiga flugfélög hættu á að missa verra nýtta tíma.