Svalt veður – en kannski bara þægilegt

Það er svalt á landinu og verður eitthvað áfram samkvæmt veðurspám. Erlendum ferðamönnum bregður ekki svo mjög, voru undir þetta búnir - og eru jafnvel sumir nokkuð sáttir að komast hingað úr hitasvækjunni á heimaslóðum. Þykir þetta bara þægilegt í einhverja daga.

Úr Skaftafellsþjóðgarði Myndir: ÓJ

Þó fremur kuldalegt hafi verið í þjóðgarðinum í Skaftafelli í gærmorgun voru fjölmargir erlendir ferðamenn komnir til að fara á jökulinn undir leiðsögn. En fyrst var að búa sig vel og festa gadda undir skóna. Allir dúðaðir og tilbúnir í dálítið svalt ævintýri. Jöklarnir hopa og æ fleiri átta sig á því að innan jarðsögulega skamms tíma hverfa þeir með öllu – ef ekki verður breyting á þróun loftslagsmála. Um að gera að drífa sig, hugsar einhver.

Stöðugur straumur var í upplýsingamiðstöðina, spurt var um kosti í boði, gönguleiðir og þjónustu, og starfsfólkið greiddi úr hvers manns vanda. Fátt var á tjaldsvæðinu en þar fjölgar fljótlega þegar fleiri Íslendingar fara í sumarfríi.