Taka Bretlandsflugið tímabundið úr sölu

Ennþá liggur ekki fyrir afhverju þotu Niceair var meinað að fara í loftið með farþega frá Stansted.

Það eru sæti fyrir 150 farþega í þotunni sem Niceair leigir frá portúgalska félaginu Hifly. Um eitt hundrað farþegar flugu með félaginu til London á laugardaginn. Mynd: Isavia

Fyrsta áætlunarferð Niceair frá London til Akureyrar gekk ekki sem skildi því félagið fékk ekki heimild til að fljúga frá Stansted flugvelli með farþega. Fólkið varð því að fljúga til Keflavíkurflugvallar frá London með öðru félagi.

Að sögn Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra Niceair, þá liggur ennþá ekki fyrir afhverju Niceair fékk þessar „mótttökur“ í Bretlandi og meðan staðan er þannig þá hafi þótt réttast að taka Lundúnarflugið úr sölu.

Á vef Niceair í dag er því eingöngu hægt að bóka flug til Kaupmannahafnar og Tenerife. Ferðirnar sem áformaðar eru til Manchester í Bretlandi næsta vetur eru heldur ekki í bókanlegar á þessari stundu.