Tíunda hver ferð felld niður út sumarið

Nærri daglega berast fréttir af flugfélögum sem þurfa að skera niður áætlun sumarsins.

Þota Air Canada á Keflavíkurflugvelli MYND: ISAVIA

Farþegar á Keflavíkurflugvelli komast til bæði Montreal og Toronto með Air Canada en þetta stærsta flugfélag Kanada í töluverðum vandræðum með að halda áætlun. Af þeim sökum verður framboð félagsins í júlí og ágúst skorið niður um tíu prósent eða um 154 ferðir á dag. Það jafngildir allri umferð um Keflavíkurflugvöll á einum sólarhring.

Þessi niðurskurður Air Canada mun fyrst og fremst koma niður á innanlandsflugi. Það stefnir því ekki í að ferðunum til Íslands verði fækkað og samkvæmt athugun Túrista hefur félagið ekki tekið úr sölu flug hingað næstu tvo mánuði.

Air Canada er ekki eitt um áætlunarferðir héðan til tveggja fjölmennustu borga Kanada því Icelandair flýgur líka til Toronto og í næstu viku tekur félagið upp þráðinn í Montreal.

Þegar Wow Air var ennþá í loftinu þá flaug það félag líka til borganna tveggja og gera má ráð fyrir að Play horfi til þess að hefja flug til Kanada. Félagið fékk nefnilega nýverið heimild fyrir áætlunarflugi hjá flugmálayfirvöldum þar í landi.