Treyst á að ferðafólkið gæti sín

Allir eru sem fyrr sammála um að auka þurfi öryggi í Reynisfjöru. Málefnalegir fundir og gagnlegir samráðsfundir eru haldnir. Samráðshópur á að skila tillögum til ráðherra fyrir septemberlok. Óljóst er hvenær lokið verður við uppsetningu viðvörunarkerfis í fjörunni. Þangað til er treyst á dómgreind ferðafólks.

Ferðafólk í Reynisfjöru - Mynd: ÓJ

Það var margt ferðafólk í Reynisfjöru þegar tíðindamaður Túrista átti leið þar um í gær. Margir fóru langt inn fyrir ráðlögð varúðarmörk í fjörunni. Fólk virðist hreinlega ekki trúa því hversu fljótt hægur öldugangur getur breyst í hættulega brimskafla. Sumir klifu í klettum og dáðust að öldurótinu, sem virtist þá stundina sakleysislegt. Þetta heitir Black Sand Beach á ferðasíðunum og er gríðarvinsæll staður til að taka sjálfu til að smella inn á Instagram eða aðra samfélagsmiðla.

Kappklætt fólk á öllum aldri, skælbrosandi, með síma á lofti að taka mynd af sér með þessa fallegu fjöru og kletta í baksýn. Einhverjir virtust meðvitaðir um hættuna sem þarna leynist, héldu sig í hóflegri fjarlægð frá fjöruborðinu og öldunum, sem komu ein og ein, viðbúnir að hörfa enn fekar. Aðrir voru fullir sjálfstrausts, harðákveðnir að sleppa ekki þessu tækifæri til að ná ómótstæðilegum myndum. Óvíst hvort nokkur í fjörunni hafi vitað af nýafstaðnum samráðsfundi í Leikskálum í Vík eða velt fyrir sér hvaða tillögur verða lagðar fyrir ráðherra ferðamála með haustinu. Margar eru nefndirnar.

Þegar maður horfir á fólkið streyma úr rútunum og niður í fjöru og hvernig það nýtur náttúrunnar á þessum magnaða stað, vaknar þessi einfalda spurning: Er til of mikils ætlast að yfirvöld sjái til þess að vel búnir strandverðir gæti að ferðafólkinu og forði því að það fari sér stórlega að voða? Ferðafólkið er komið til að njóta Reynisfjöru og er vafalaust tilbúið að borga hóflegt gjald til þess.

Nú hafa orðið fimm banaslys í Reynisfjöru á sjö árum og til viðbótar hafa margir verið hætt komnir, verið bjargað á síðustu stundu úr bráðum háska. Enginn vill loka fjörunni eða reisa miklar varnargirðingar – spilla villtum sjarma Reynisfjöru. Viðvörunarkerfið sem unnið er að mun örugglega hjálpa en kemur tæplega í stað öryggisgæslu strandvarða á hinni undurfögru og mögnuðu Black Sand Beach.