Visit Iceland í fyrsta sæti

Það sem af er ári hefur VisitIceland.com fengið um tvær milljónir heimsókna. Það er meira en helmingi meira en allt árið í fyrra.

Nýr vefur VisitIceland fór í loftið síðastliðið haust en hann samstarfsverkefni Ferðamálastofu og Íslandsstofu. Á nýja heimasíðunni eru efnistökin töluvert dýpri en á þeirri sem fyrir var og upplýsingagjöf til ferðamanna meiri.

Og segja má að þessi betrumbætur fái athygli fagmanna því Visit Iceland er í fyrsta sæti á nýjum lista ferðafjölmiðilsins Skift yfir best hönnuðu upplýsingasíður fyrir ferðafólk.

Í umsögn Skift er íslensku síðunni hrósað fyrir einfalt og norrænt útlit. Þar segir jafnframt að texti síðunnar sé upplýsandi, skemmtilega skrifaður og veki forvitni hjá lesendunum. Á sama tíma sé síðan lifandi og einföld í notkun.

Vefur Visit Iceland fær um fimmtíu þúsund heimsónir á viku og samkvæmt upplýsingum frá Íslandsstofu þá eru þær langflestar frá Bandaríkjunum en á eftir koma Þýskaland og Bretland.

Gull og silfur fyrir herferð síðasta sumars

Það er ekki aðeins hönnun Visit Iceland sem fær alþjóðlega viðurkenningu þessa dagana því herferð Íslandsstofu, Sweatpant Boots, fékk í vikunni hin eftirsóttu Effie markaðsverðlaun í tveimur flokkum. Annars vega gull í flokknum „Small budgets – services“ og hins vegar silfurverðlaugn í flokknum „David vs. Goliath“. Herferðinni var hleypt af stokkunum síðastliðið sumar og gekk út á að gera erlendum ferðamönnum það kleift að endurvinna margnotuðu joggingbuxurnar sínar, umbreyta þeim gönguskó og halda á vit ævintýranna á Íslandi.