Aðkoma og umferð í endurskoðun

Unnið er að nýju deiliskipulagi þjóðgarðsins á Þingvöllum og er stefnt að umtalsverðum breytingum á fyrirkomulagi umferðar og bílastæða.

Rútur á Þingvöllum
Rútur á Þingvöllum Mynd: Óðinn Jónsson

Fram kom í viðtali Túrista í vikunni við Einar Á.E.Sæmundsen, þjóðgarðsvörð á Þingvöllum, að bílarnir eigi að hverfa úr augsýn þeirra sem standa við Hakið og horfa yfir þingstaðinn og stórkostlegt umhverfi hans.

„Stóra hugmyndin er sú að innan fárra ára verði þessum bílastæðum lokað og önnur komi í staðinn hér fyrir ofan, norðan Öxarárfoss,“ segir Einar í viðtalinu. Hann vonast til að sjá þetta verða að veruleika að fáum árum liðnum.

Umferðin um Þingvelli er gríðarleg, sama dag og tíðindamaður Túrista var þar höfðu 50 rútur komið fyrir klukkan 10 með gesti af lystiskipum. Ætla má að allt að 75 prósent þeirra ferðamanna sem koma til landsins á ári heimsæki Þingvelli, flestir á leið um Gullna hringinn. Um og yfir milljón á ári. Það reynir því mikið á þennan heimsminjastað sem okkur er trúað fyrir.

Nýverið fékk þjóðgarðurinn á Þingvöllum viðurkenningu stjórnvalda ferða- og umhverfismála sem fyrsta Varðan á Íslandi. Með því skuldbindur þjóðarðurinn sig til að vinna að sjálfbærni á öllum sviðum. Umferðarmálin og öll losunarmál eru auðvitað meðal þeirra verkefna sem þarf að leysa. Til að fá afnotarétt á vörumerkinu Vörðu þurfa umsjónaraðilar að skuldbinda sig til að framfylgja kröfum og skilgreindum viðmiðum, m.a. um umhverfisvernd, sjálfbærni og öryggi.

Þú færð aðgang að öllu efni Túrista næstu tvo mánuði fyrir 2.000 kr. Notaðu afsláttarkóðann SUMAR2022 hér. Áskrift endurnýjast á fullu verði í framhaldinu en alltaf hægt að segja upp.