Samfélagsmiðlar

Akranes vill á ferðakortið

Mikil gerjun er á Akranesi, sem gæti orðið meðal vinsælustu ferðamannastaða, ef metnaðarfullar áætlanir ganga eftir. Túristi ræddi við Sævar Frey Þráinsson, bæjarstjóra.

Sævar Freyr Þráinsson

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, breiðir út faðminn

Útgerðarplássið, sementsbærinn, heimabær fjölda fólks í stóriðjustörfum á Grundartanga. Þetta er Akranes, Skipaskagi – eða bara Skaginn. Svo eru uppi áform um að laða að nýsköpunar- og hátæknifyrirtæki, ekki síst í nýtt hverfi á Breiðinni. En af hverju er Akranes ekki ferðamannabær? 

Nú er ekkert starfandi hótel í bænum, aðeins tveir veitingastaðir opnir á kvöldin, þá eru ótaldir skyndibitastaðir og sjoppur. Einhver gæti sagt að Akranes sé svefnbær fólks sem vinni að stærstum hluta á Grundartanga og í Reykjavík. 

Samfélag við sjó

Nýlega voru kynntar niðurstöður metnaðarfullrar hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Breiðarinnar, sem er svæðið sem liggur á milli gömlu vinnsluhúsa HB-útgerðarinnar, síðar Brims, og vitanna. Þarna sem áður var breiddur út saltfiskur blasa ný tækifæri við. Meðal þeirra sem hafa áform um uppbyggingu á svæðinu er fyrirtækið Running Tide sem þróar tækni til að fanga koltvísýring í andrúmsloftinu og binda í ræktuðum þörungum. 

Tillagan sem vann samkeppnina nefnist Lifandi samfélag við sjó og er unnin af arkitektastofunni Arkþing/Nordic og Eflu verkfræðistofu. Það sem fyrst vekur athygli í tillögunni er að það á að halda í og endurnýta gamlar atvinnubyggingar og búa til blandaða byggð. 

Og þarna á að verða til baðlón og rísa hótel á móti brimgarðinum. 

Vilja byggja upp ferðaþjónustu

Jú, Akranes vill verða ferðamannabær, segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri, þegar við setjumst niður í gamla HB-húsinu við Bárugötu.

Þar er nú til húsa margvísleg starfsemi, m.a Þróunarfélagið Breið, sem er samvinnuverkefni Akraneskaupstaðar og Brims, sem á stærstan hluta lóða á svæðinu. Markmiðið er að byggja upp Breiðina  og almennt styðja við atvinnustarfsemi og nýsköpun í bænum. Skagamönnum hefur augljóslega tekist að kveikja mikinn áhuga hjá Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra og aðaleiganda Brims. 

Túristi baunar því á bæjarstjórann að Akranes hafi ekki sýnt mikið frumkvæði í ferðaþjónustumálum hingað til en hann bendir á að ýmislegt hafi nú gerst á síðustu árum sem vísi veginn. Það sé nýbúið að taka í gegn byggðasafnið, þar sem gefist góð innsýn í sögu útgerðar á Akranesi og Sementsverksmiðjunnar. Svo hafi Hilmari Sigvaldasyni tekist upp á sitt eindæmi að telja fólki trú um að það væri sannarlega þess virði að skoða Akranesvita – ekki síst njóta hljómburðarins í honum og glæsilegs útsýnis út á Faxaflóa. Nú komi um fimmþúsund gestir árlega í Akranesvita og enn fleiri skoða umhverfi hans. Þá hafi árið 2018 bæst við baðstaðurinn Guðlaug við Langasand. Þangað komi um 15 þúsund gestir árlega. Nýlega hafi svo Hoppland komið upp aðstöðu nærri gömlu skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts fyrir þá sem vilja steypa sér í hafið úr nokkurri hæð. Þangað liggur stöðugur straumur, segir Sævar Freyr. Og loks ljóstrar bæjarstjórinn upp um það að eitt hvalaskoðunarfyrirtækið, sem gerir út frá Reykjavík, ætli fljótlega að bæta við ferðum frá Skaganum á hvalaslóðir á Faxaflóa.

„Þetta sýnir Akranes getur verið á kortinu sem ferðamannastaður.” 

Ekkert hótel í stórum bæ

Ýmislegt hefur sem sagt gerst – en það er mikið verk framundan að stimpla Skagann inn sem túristapláss. Það vantar t.d sárlega hótel. 

„Það er auðvitað ekki í lagi að ekkert hótel finnist í svo stóru sveitarfélagi. Miklu minni pláss státa af hótelum. Skortur á gistirými veldur margskonar óþægindum, ekki síst fyrir fyrirtæki og aðra í bænum sem fá til sín gesti. Svo eru það ferðamennirnir. Nú höfum við orðið vör við áhuga á frekari uppbyggingu við Guðlaugu og erum með svæði við sementsverksmiðjureitinn sem ætlað er fyrir hótel. Þá hafa verið þreifingar um byggingu hótels nærri miðbænum. Og nú síðast er það hugmyndasamkeppnin sem við stóðum að með Brimi um Breiðina. Í vinningstillögunni er gert ráð fyrir að hótel rísi við ströndina.”

Sævar Freyr segir að hugmyndir um uppbyggingu hótels og baðlóns á Breiðinni ættu að tengjast heilsueflandi starfsemi. Þá horfir hann ekki síst til Sjúkrahúss Akraness sem sé að fjölga skurðstofum til að geta sinnt fleiri liðskiptaaðgerðum, fjölga þeim úr 120 í 380 á ári. Það geti verið gott að jafna sig á góðu hóteli á Breiðinni.

Meiri trú á framtíðina

Þetta eru fagrar áætlanir en í raun er Akraneskaupstaður skammt á veg kominn að verða eftirsóttur ferðamannastaður. Líklega hefur gott atvinnuástand verið letjandi, dregið úr frumkvæði, t.d í ferðaþjónustu, og við bætist að stór hluti Skagamanna sækir vinnu í höfuðborginni. 

„Ég skynja að meðal Skagamanna sé sú breyting að verða að hafa trú á því að hefja megi nýjan rekstur í bænum. Ný miðbæjarsamtök eru til merkis um breytt andrúmsloft. Fólkið sjálft í bænum vill sjá tækifærin verða að veruleika hér á Akranesi. Mörg verkefni í og við miðbæinn eru vísar að einhverju sem á eftir að blómstra á næstu árum.”

Bæjarstjórinn er stoltur af þeim markvissu skrefum sem hafa verið stigin á síðustu misserum, sem sanni að Skaginn geti orðið ferðamannastaður, en viðurkennir um leið að margt sé ógert, t.d að lagfæra úr sér gengnar steyptar götur í gamla bænum, sem margar eru í bágu ástandi, og halda áfram úrbótum á gömlum húsum. Nokkur þeirra hafa þegar gengið í endurnýjun lífdaga og sóma sér vel. 

Áfangastaður Reykvíkinga

Við blasir eiginlega að Akranes, sem er svo skammt frá höfuðborginni, ætti t.d. að geta laðað til sín fólk þaðan um helgar – ef meira væri í boði í afþreyingu og veitingum á Skaganum – að ekki sé talað um ef ný Akraborg hæfi siglingar.

Þessu játar bæjarstjórinn. 

„Við erum einmitt að vinna með mjög svo áhugaverðum fjárfestum að því að koma Akranesi betur á kortið. Ég hef trú á að þetta verði að veruleika.” 

Þá eru ferjusiglingar meðal þess sem verið er að skoða. 

„Við viljum vera komin aðeins lengra í uppbyggingu á sementsreitnum áður en ferja leggst þar að að nýju. Rætt hefur verið við Vegagerðina um að ferja verði framtíðar strætó okkar milli höfuðborgarinnar og Skagans.”

Svo er það Breiðin og uppbyggingin þar, ekki síst loftslagsbjörgunarstarfsemi Running Tide, sem laðað geti mikinn fjölda ferðafólks upp á Akranes. Lokaorð bæjarstjórans eru alveg skýr:

„Akranes er sá bær á Íslandi sem á mest inni í túrisma.”

Þú færð aðgang að öllu efni Túrista næstu tvo mánuði fyrir 2.000 kr. Notaðu afsláttarkóðann SUMAR2022 hér. Áskrift endurnýjast á fullu verði í framhaldinu en alltaf hægt að segja upp.

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …