Bain Capital bætir við hlut sinn í Icelandair

Hlutur stærsta hluthafans í Icelandair fer upp í 18 prósent.

Bandaríski lánasjóðurinn Bain Capital Credit keypti 16,6 prósent hlut í Icelandair Group fyrir þrettán mánuðum síðan og greiddi 8,1 milljarð króna fyrir. Í kaupbæti fékk sjóðurinn rétt til að auka hlutinn sinn um fjórðung í tengslum við birtingu uppgjörs flugfélagsins fyrir annan ársfjórðung í ár.

Það uppgjör var birt fyrir viku síðan og nú í kvöld tilkynnti Icelandair að Bain Capital ætlaði að nýta þennan rétt. Fyrir þessi viðbótarbréf greiðir Bain Capital rúma 2,3 milljarða króna en viðskiptin fara fram á genginu 1,64 kr. á hlut. Gengi bréfa í Icelandair var 1,91 kr. í lok viðskipta í dag.

Vegna þessara viðbótarfjárfestingar verður hlutafé í Icelandair aukið og þar með dragast hlutir annarra hluthafa saman. Þannig fer hlutur Brúar lífeyrissjóðs, næststærsta hluthafans, úr 4,14 prósentum niður í 3,99 prósent. Bilið á milli Bain Capital og annarra hluthafa breikkar því enda mun eign sjóðsins í Icelandair nema 18 prósentum þegar viðskiptin eru gengin í gegn.