Bíða með verkfall fram yfir helgi

Boðaðar verkfallsaðgerðir flugmanna SAS hefjast í fyrsta lagi í hádegi á mánudag.

Ef til verkfalls kemur hjá SAS mun það hafa mjög mikil áhrif á flugumferð til og frá Kaupmannahafnarflugvelli. Mynd: CPH

Áfram sitja fulltrúar flugmanna SAS og flugfélagsins við samningaborðið í Stokkhólmi og reyna að komast að samkomulagi til að afstýra verkfalli. Upphaflega ætluðu flugmenn að leggja niður störf á miðnætti síðastliðinn miðvikudag en þeir frestuðu aðgerðum í þrjá sólarhringa. Þessi framlenging rann út í gærkvöld en þá var gefið út að reynt yrði að ná saman fyrir klukkan ellefu í dag.

Það gekk hins vegar ekki og þá gáfu fulltrúar flugmanna út að viðræðum yrði haldið áfram til hádegis á mánudag og verkfalli frestað fram að þeim tíma.

Farþegar SAS sem eiga bókað flug fram að þeim tíma ættu því að komast í loftið en þotur SAS fljúga hingað daglega frá bæði Kaupmannahöfn og Ósló.

Ef af verður mun verkfallið ná til um helmings flugmanna félagsins eða um þúsund manns.