Biðla til stjórnenda flugfélaga um að hætta að rukka foreldra fyrir að sitja hjá börnum sínum

Hjá Icelandair og fleiri flugfélögum bíður foreldra eins konar óvissuferð þegar ferðast er með börn. Alla vega ef ódýrustu miðarnir eru bókaðir.

Það er ekki sjálfgefið að farþegar sem eru bókaðir á sama miða fái að sitja samsíða í ferðalaginu. Mynd: Gerrie van der Walt / Unsplash

Það hefur lengi tíðkast hjá lágfargjaldaflugfélögum að rukka farþega aukalega fyrir að velja ákveðið sæti og nú hafa flest önnur flugfélög tekið upp þessa verðlagningu. Stjórnendur félaganna hafa þó verið misharkalegir í því að rukka fjölskyldur sérstaklega fyrir að að tryggja sér sæti samsíða í þotunum.

Hjá Icelandair hefur skrefið í þessa átt þó verið stigið til fulls því þar á bæ eru foreldrar ekki öruggir um sæti við hlið barna nema kaupa dýrari flugmiða eða borga aukalega fyrir sætin. Um þetta hefur Túristi áður fjallað um.

Stjórnendur Icelandair tóku upp þessa hörðu línu í heimsfaraldrinum eða um svipað leyti og Ástralinn John Thomas settist í stjórn Icelandair. En sá telur sér það til tekna að vera manninn sem hafi komið á aukagjöldum í Bandaríkjunum árið 2007 og þar með bjargað fluggeiranum vestanhafs eins og lesa má í ferilskrá mannsins.

Það má vera að þessi nýja verðstefna Icelandair sé megin ástæða þess að flugfélagið var nú í sumarbyrjun flokkað sem „Ultra low cost carrier“ í umfjöllun stórblaðsins New York Times. Þar með er Icelandair sett á sama bás og flugfélög eins og Spirit og Ryanair.

Icelandair er þó ekki eitt um fylgja harðri línu þegar kemur að úthlutun sæta til foreldra og barna. Af þeim sökum hafa flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum biðlað til flugfélaga þar í landi að tryggja að börn fái pláss við hlið forráðamanns án þess þó að borga sérstaklega fyrir.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem gefin var út í þarsíðustu viku en þar er jafnframt boðuð úttekt á starfsháttum flugfélaga á þessu sviði og aðgerðir til að tryggja fjölskyldum sæti samsíða eru ekki sagðar útilokaðar.

Þessi pressa frá bandarískum flugmálayfirvöldum gæti því haft þau áhrif hér á landi að íslenskir foreldrar þurfi ekki mikið lengur að borga aukalega fyrir að vera örugg um að fá sæti við hlið barnanna sinna þegar flogið er út í heim.

NÝJAR GREINAR: Stjórnvöld ráða hraða uppbyggingarVill skipta landinu í tvennt