Einkaþoturnar burt

Vinstri grænir í borgarstjórn Reykjavíkur vilja að umferð einkaþotna og þyrlna verði beint frá Reykjavíkurflugvelli.

Einkavélar í súldarveðri á Reykjavíkurflugvelli í dag. Mynd: Óðinn Jónsson

Margir sem búa nærri Reykjavíkurflugvelli hafa á undanförnum árum kvartað undan hávaða og mengun þaðan, ekki síst frá einkaþotum. Áheyrnarfulltrúi vinstri-grænna í borgarráði, Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi, lagði til í borgarráði í dag að borgarstjóra yrði falið að semja við samgönguyfirvöld um að einkaþotum og þyrlum verði beint annað, t.d. á Keflavíkurflugvöll og þyrlupalla fjær byggð.

Líf segir á Facebook að meginröksemdin að baki tillögunni sé umhverfisleg en hún varði líka velferð íbúana. Hún lýsir hávaða, mengun og óþef frá umferðinni á flugvellinum – og beinir spjótunum að ríkum ferðamönnum og gestum:

„Varla er til meira mengandi samgöngumáti en einkaþotu- og þyrluflug auðkýfinga og auðmanna. Á tímum baráttu gegn hamfarahlýnun er ólíðandi að yfirvöld greiði fyrir og ýti jafnvel undirnotkun slíkra farartækja með því að finna þeim stað í hjarta borgarinnar.“

Líf Magneudóttir minnir á að Reykjavíkurborg ætli sér að verða kolefnishlutlaus fyrir 2040.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað.

Þú færð aðgang að öllu efni Túrista næstu tvo mánuði fyrir 2.000 kr. Notaðu afsláttarkóðann SUMAR2022 hér. Áskrift endurnýjast á fullu verði í framhaldinu en alltaf hægt að segja upp.