Samfélagsmiðlar

„Erum að dragast aftur úr”

Við höfum ekki hugað nógu vel að umhverfismálum og dregist aftur úr í þeim efnum. Á sama tíma er fjárhagsstaða greinarinnar ömurleg á heildina litið, segir ferðamálastjóri við Túrista.

Skarphéðinn Berg Steinarsson

Skarphéðinn Berg Steinarsson við Reykjavíkurhöfn, sem dregur til ferðafólkið.

Við setjumst niður á kaffihúsi í miðborginni í sumarblíðunni til að ræða stöðu ferðaþjónustunnar. Skarphéðinn Berg Steinarsson hefur gegnt embætti ferðamálastjóra síðustu fjögur og hálft árið. Þetta hefur verið sérstakt tímabil, með gríðarlegum uppgangi árin 2017 til 19 en svo kom kórónafaraldurinn. Skipunartími Skarphéðins rennur út um áramót en hann segir ekkert liggja fyrir um framhaldið. 

Sumarið verður gott en blikur eru á lofti

Við byrjum á að ræða hið augljósa: Ferðasumarið 2022 verður gott, eiginlega frábært ef miðað er við hrakspár margra. „Nú stefnir í að við fáum um 92 prósent af þeim ferðamannafjölda sem hingað kom fyrir heimsfaraldurinn,” segir Skarphéðinn og sýpur á svörtu kaffinu. „Þetta er hærra hlutfall en margar aðrar þjóðir eru að ná.” Sérfræðinga bíður það verkefni að greina ástæður þessarar velgengni. Ferðamálastjóri nefnir sem fyrstu skýringar góðar flugsamgöngur við Ísland og þá gæfu að ferðafólkið streymi hingað úr ólíkum áttum. Enn vanti þó ferðafólkið frá Asíu, sem mikið munar um. 

„Ísland er dýrt og hugsanlega eru margir að njóta þess nú að hafa litlu eytt á meðan Covid-19 geisaði, hafa lagt fyrir í tvö ár og láta nú verða af því að kaupa Íslandsferð.” 

Þetta hljómar trúlega.

En hvað gerist þegar þessi fyrsta bylgja ferðaþyrstra hefur gengið yfir? Skarphéðinn segir að í sumarlok blasi óvissa við. Enginn viti hvaða snúninga kórónaveiran taki, hversu lengi stríðið í Úkraínu vari og hvaða áhrif hráefnaskortur hafi, t.d á varahluti í flugvélar. Svo er það verðlagsþróunin – verðbólgan, sem leikur ferðaþjónustuna illa. Það er ekki einfalt að velta kostnaðaraukanum, verðhækkunum á aðföngum og lánsfé út í verðlagið, hækka verð á söluvörunni: ferðunum, gistingunni. Ferðamaðurinn ber saman verð og kaupir með löngum fyrirvara. 

Meiri samþjöppun nauðsynleg

„Afkoman í greininni er óviðunandi. Ferðaþjónustufyrirtækin voru varkár og verðlögðu þjónustuna lágt í aðdraganda sumarvertíðar. Verðið hefur ekki fylgt hækkun á kostnaði vegna launa, aðfanga og fjármagns. Þetta kemur illa við atvinnugreinina sem er skuldsett fyrir. Framleiðslutækin sem hún styðst við hafa elst og oft verið afskráð. Lánin eru því í mörgum tilvikum orðin hærri en veðin,” segir Skarphéðinn Berg Steinarsson og segir augljóst að breytingar þurfi að verða.

„Um leið og mikilvægt er að halda í styrk fjölbreytileikans er nauðsynlegt að sjá meiri samþjöppun í greininni,” segir ferðamálastjóri. „Við þurfum stærri fyrirtæki til að tryggja faglega nálgun og þekkingu í markaðsmálum, menntun og þjálfun starfsfólks – almennt kunnáttu í mannauðsmálum. Fjárhagsstaðan er ömurleg á heildina litið. Greinin þarf meira eigið fé, beinharða peninga í uppbyggingu og rekstur. En um leið verðum við að halda í kraftinn sem fylgir hinum smáu og ólíku í greininni.”

Skarphéðinn segir brýnt að fá meiri innlenda og erlenda fjárfestingu í greinina. Verkefnin séu mörg og möguleikarnir miklir. 

Höfum ekki hugað nóg að umhverfismálum

Spjallið á kaffihúsinu þennan góða júnídag berst að því sem þó framar öðru mun ráða framtíð okkar allra – umhverfismálunum. 

„Við erum að dragast aftur úr,” segir ferðamálastjóri og blaðamanni bregður eiginlega við hversu afdráttarlaus hann er. 

„Við höfum ekki hugað nógu vel að umhverfismálunum. Þetta á eiginlega við um allt: flugið, bílaaksturinn um hringveginn og almennt notkun jarðefnaeldsneytis, val á matvælum og nýtingu þeirra, fráveitumálin. Við höfum ekki haft þessi mál í fókus þó vissulega séu sífellt fleiri að setja þau á dagskrá hjá sér.“ 

Skarphéðinn nefnir sérstaklega komu skemmtiferðaskipa hingað til lands en þeim hefur fylgt mikil losun. Hann segir að við ættum að gera meiri kröfur til skemmtiferðaskipanna – að hingað sigli aðeins skip sem uppfylli kröfur varðandi kolefnisspor. 

„Við náum ekki markmiðum okkar í umhverfismálum með því að bíða eftir innleiðingu annarra. Árangur okkar á þessu sviði er mikilvægur varðandi sölu á ferðum hingað í framtíðinni.”

Erum ekki það sem við segjumst vera

Ég spyr loks um áhrif hvalveiða Íslendinga og hvað ferðamálastjóri hefur að segja um þær. Hann dregur upp snjallsímann og sýnir mér langa röð tölvubréfa frá fólki í útlöndum sem mótmælir hvalveiðunum, hefur áhyggjum af þeim, og jafnvel hótar að koma aldrei til landsins á meðan þær eru stundaðar. 

„Stóru málin varða umhverfi og loftslag, hvernig við bregðust við þeim vanda sem að steðjar með sjálfbærni að leiðarljósi. Það þýðir að nýting okkar á náttúrunni þarf að vera sjálfbær. Hvalveiðar ganga gegn þessu. Ferðaþjónustan er auðlindadrifin atvinnugrein. Við erum að selja aðgang að náttúrunni. Fólk um allan heim sem lætur sig varða um náttúruna lítur svo á að fjölbreytileiki hennar sé mikilvægur – og hvalurinn gegni þar stóru hlutverki. Af þessum sökum getur við ekki haldið á lofti hugmyndinni um ósnortna náttúru Íslands en á sama tíma látið eitthvert leyfi til að veiða hvali standa óhaggað,” segir Skarphéðinn og niðurstaða hans er sláandi: 

„Við erum ekki það sem við segjumst vera.”

Skarphéðinn segir að veiðar Hvals hf. á stórhvölum séu staðfesting á þessu. Hvalveiðar hafi engin jákvæð áhrif á afkomu þjóðarinnar, nema síður sé, og þær gangi þvert gegn mörgu sem við erum að gera: endurheimta votlendi, auka skógrækt, binda koldíoxíð úr andrúmsloftinu. 

Hvað segir þá fólk í ferðaþjónustunni um þá þrákelkni eiganda Hvals hf. um að halda áfram hvalveiðum? 

„Fólk hristir hausinn, nennir ekki að diskútera þetta frekar. Vonast bara til að þetta gangi yfir.”

Við ferðamálastjóri göngum út í góða veðrið í miðborginni og kveðjumst. Hvarvetna eru túristarnir að njóta dagsins, upplifa eitthvað nýtt og áhugavert. Fæstir þessara góðu gesta velta því líklega fyrir sér hversu miklu lífi einmitt þeir hafa hleypt í miðborgina, gert hana meira lifandi og skemmtilega að búa í. 

Nýtt efni

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …