Færri panta flug á síðustu stundu

Ástandið á fluggeiranum í sumar hefur haft slæm áhrif á eftirspurn eftir því sem líður á vertíðina.

Farþegi á Heathrow flugvelli í London Mynd: London Heathrow

Fluggeirinn á fullt í fangi með að anna eftirspurn eins og örtröð á evrópskum flugstöðvum er til vitnis um. Flugfélög hafa líka þurft að draga úr áætlunum sínu en í júní var hlutfallslega fjórfalt fleiri ferðum frá Keflavíkurflugvelli aflýst en í eðlilegu árferði.

Þessir erfiðleikar hafa dregið verulega úr áhuga Evrópubúa á því að bóka flug innan álfunnar eftir því sem liðið hefur á sumarið. Fyrstu vikuna í júlí voru til að mynda 44 prósent færri miðar bókaðir í flugferðir næstu tveggja mánaða en raunin var á sama tíma árið 2019. Þetta sýnir samantekt greiningafyrirtækisins ForwardKeys en þar er eingöngu horft til flugferða innan Evrópu.

Neytendur halda því frekar að sér höndum núna en fyrir þremur árum síðan þegar kemur að bókunum á flugferðum með stuttum fyrirvara.

Þessi þróun er þó ólík eftir flugvöllum því samdrátturinn er mestur á þeim svæðum þar sem örtröðin hefur veirð mest. Bókunarstaðan í Evrópuflugi frá London hefur þannig versnað meira en annars staðar. Þar á eftir koma Lissabon, Barcelona, Madríd og Róm.