Farþegafjöldinn í takt við spá

Áfram er litast júní af óstundvísi hjá Icelandair.

Mynd: Raleigh Durham Airport

Það voru um 431 þúsund farþegar sem nýttu sér ferðir Icelandair frá Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli í júní og á fyrri helmingi ársins flutti félagið um 1,4 milljónir farþegar og þar af voru farþegar í innanlandsflugi um eitt hundrað þúsund talsins.

Segja má að þessi farþegafjöldi sé í takt við þá spá sem Icelandair birt í tengslum við hlutafjárútboð sitt haustið 2020 enda er þar gert ráð fyrir 2,7 milljónum farþega á þessu ári. Að öllu óbreyttu ætti farþegahópurinn hins vegar að verða töluvert fjölmennari á seinni hluta ársins. Ómíkrón afbrigði kórónuveirunnar hafði til að mynda neikvæð áhrif á eftirspurn eftir ferðalögum í janúar og febrúar.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að framboð á flugi í júní hafi verið um 77 prósent af því sem var á sama tíma árið 2019. Sætanýtingin í millilandafluginu var 83 prósent samanborið við 54 prósent í júní í fyrra. Ef horft er til áranna fyrir heimsfaraldur þá var var sætanýtingin hjá Icelandair 88 prósent í júní 2019 og 84 prósent árið áður.

Stundvísi var skárri að þessu sinni eða 67 prósent. Í júní 2019 hélt félagið áætlun í 64 prósent tilvika en aðeins fjórar af hverjum tíu ferðum Icelandair voru á réttum tíma í júní 2018.

„Við höfum gripið til ýmissa aðgerða til að bregðast við krefjandi aðstæðum í rekstrarumhverfinu, bæði vegna aðstæðna á flugvöllum erlendis og vegna áskorana í aðfangakeðjum. Það er forgangsmál hjá okkur að lágmarka áhrif á farþega eins og mögulegt er með ýmsum ráðstöfunum og bættri upplýsingagjöf, bæði í millilandafluginu og innanlands,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.

Þú færð aðgang að öllu efni Túrista næstu tvo mánuði fyrir 2.000 kr. Notaðu afsláttarkóðann SUMAR2022 hér. Áskrift endurnýjast á fullu verði í framhaldinu en alltaf hægt að segja upp.