Fella niður flug til Íslands

Umferðin um Frankfurt flugvöll í dag verður mjög takmörkuð vegna verkfalls flugvallarstarfsmanna. MYND: FRA

Þotur þýska flugfélagsins Lufthansa verða ekki á ferðinni í dag því öllum áætlunarferðum félagsins frá Þýskalandi hefur verið aflýst næsta sólarhring. Ástæðan er vinnustöðvun meirihluta flugvallarstarfsmanna í Frankfurt og Munchen en í þessum tveimur borgum eru starfsstöðvar Lufthansa.

Ekkert verður því af ferð félagsins til Keflavíkurflugvallar frá Frankfurt í kvöld né brottförinni héðan til þýsku borgarinnar stuttu eftir miðnætti. Aftur á móti ferð Lufthansa héðan til Frankfurt eftir hádegi á morgun á áætlun.

Auk Lufthansa þá flýgur Icelandair reglulega til Frankfurt og Munchen en verkfall þýskra flugvallarstarfsmanna hefur ekki áhrif á ferðir þess félags í dag.

Gert er ráð fyrir að vinnustöðvun dagsins hafi áhrif á 134 þúsund farþega Lufthansa.