Fjórfalt fleiri flugferðir felldar niður með stuttum fyrirvara

Það hefur reynst flugfélögum víða um heim erfitt að halda áætlun nú í sumar. Hér heima er ástandið líka verra en í eðlilegu árferði.

Það reynir á þolinmæði flugfarþega út í heimi og hér heima. Stundvísi í flugi hefur til að mynda verið verri en mánuðina á undan. MYND: ISAVIA

Nærri þremur af hverjum eitt hundrað ferðum frá Keflavíkurflugvelli í júní var aflýst sem er um fjórfalt hærra hlutfall en á sama tíma árið 2019 samkvæmt samanburði Túrista. Það var Icelandair sem felldi niður flestar ferðir en félagið er líka það langumsvifamesta á Keflavíkurflugvelli.

Í nýliðnum júní aflýsti Icelandair 62 komum og brottförum en það jafngildir um tveimur prósentum af áætlun félagsins. Næst á eftir kom SAS sem aflýsti 19 ferðum eða 17 prósent af Íslandsfluginu í júní. Verkfall flugmanna SAS, sem hófst fyrir viku síðan, hefur svo sett starfsemi félagsins algerlega úr skorðum nú í júlí og þar með líka áætlunarferðirnar til Keflavíkurflugvallar.

Hjá Play var ellefu flugferðum aflýst í síðasta mánuði eða um tveimur af hverjum eitt hundrað sem er sambærilegt hlutfall og hjá helsta keppinautnum, Icelandair.

Wizz Air og Easyjet aflýstu hvort um sig sex ferðum til og frá Keflavíkurflugvelli í júní en þar sem Íslandsflug félaganna er takmarkað þá verður hlutfall aflýstra brottfara hátt eða allt að sex prósent. Icelandair og Play standa nefnilega fyrir bróðurparti flugferða til og frá Keflavíkurflugvelli í sumar og hefur vægi þeirra samanlagt aukist mánuð eftir mánuð það sem af er ári.

Tölurnar hér að ofan taka eingöngu til þeirra ferða sem felldar eru niður með eins eða tveggja sólarhringa fyrirvara. Til viðbótar við þessar ferðir eru allar þær sem teknar voru úr sölu í lok vetrar og í vor. Í febrúar var til að mynda gert ráð fyrir ríflega tvö hundruð fleiri flugferðum frá Keflavíkurflugvelli í júní en raunin varð.

Dæmi um þessar breytingar er ákvörðun Eurowings um að hætta við Íslandsflug frá Hamborg í sumar og eins verður ekkert af áætlunarflugi SAS hingað frá Stokkhólmi. Ákvörðun um þá breytingu var tekin áður en verkfall flugmanna félagsins komst á dagskrá.

Þú færð aðgang að öllu efni Túrista næstu tvo mánuði fyrir 2.000 kr. Notaðu afsláttarkóðann SUMAR2022 hér. Áskrift endurnýjast á fullu verði í framhaldinu en alltaf hægt að segja upp.