Fleiri hótelgistingar en fyrir heimsfaraldur

Það var meira að gera á hótelum landsins í júní en á sama tíma árið 2019. Í það minnsta ef horft er til fjölda seldra gistinátta.

Herbergi á Fosshóteli Fáskrúðsfirði. MYND: FOSSHÓTEL

Útlendingar bókuðu 405 þúsund gistinætur á íslenskum hótelum í júní sem er um 23 þúsund fleiri nætur en í júní 2019. Aukningin nemur sex prósentum. Íslendingar sjálfir juku líka viðskipti sín við hótel landsins því gistinætur heimamanna voru rúmlega 91 þúsund en voru rétt um 38 þúsund í júní 2019. Þetta er meðal þess sem lesa má úr gistináttatölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun.

Í heildina fjölgaði því gistinóttum á hótelum um 18 af hundraði í júní.

Af útlendingunum þá voru Bandaríkjamenn stærsti kúnnahópurinn með 141 þúsund nætur og þar á eftir komu Þjóðverjar eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan.

Hlutfallslega voru það Ítalir sem bættu einna mestu við frá því fyrir heimsfaraldur því gistinætur þeirra voru nærri tvöfalt fleiri. Hollendingar bættu við um helmingi en túristum frá þessum tveimur löndum hefur fjölgað verulega að undanförnu. 

Aftur á móti er fjöldi ferðamanna frá Asíu sáralítill miðað við það sem var enda eru sóttvarnaraðgerðir ennþá almennar í Kína. Japanir eru þó að komast á ferðina á nýjan leik. Gistinóttum þeirra fækkaði um 69 prósent í júní en samdrátturinn hjá Kínverjum nam 94 prósentum.