Samfélagsmiðlar

Flugið ræður framtíðinni

Norðlensk ferðaþjónusta dafnar ekki nema að hægt sé að tryggja flugsamgöngur frá útlöndum allt árið, að mati Arnheiðar Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsskrifstofu Norðurlands.

Arnheiður Jóhannsdóttir

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu Norðurlands

„Við fáum stóran hluta ferðafólksins til baka og sjáum góðar bókanir út október, lengra inn í veturinn en við höfum áður séð. Þetta er auðvitað frábært á fyrsta árinu eftir heimsfaraldurinn. Á meðan hann geisaði nutum við þess að hafa góðan innanlandsmarkað og lentum því ekki í mikilli dýfu. Við vorum fyrir með árstíðasveifluna, vön því að draga saman seglin á veturna þegar færri landsmenn ferðast. Við erum því mjög sátt miðað við aðstæður en að sjálfsögðu eru erfiðleikar hérna, skuldsetning í greininni. Þekking tapaðist úr greininni, nokkrir frumkvöðlar hættu í faraldrinum og tíma tekur að fylla í þau skörð,” segir Arnheiður.

Norðurland naut innanlandsmarkaðarins og blíðviðris síðasta sumar á meðan faraldurinn greisaði og erlendu ferðamennirnir héldu sig heima. Í ágúst og september skilaði um 90 prósent af umferðinni fyrir faraldur sér á norðlensku hótelin. Innlendu ferðamennirnir komu til bjargar.

„Ef ekki verða frekari áföll á ég von á að við náum svipaðri umferð á þessu ári og fyrir faraldur.” 

Þrátt fyrir endurkomu ferðamanna er rekstrarstaðan ekki nógu góð. „Það hefur þau áhrif að ekki er ráðið jafn margt starfsfólk og þyrfti. Menn treysta sér ekki að ráða marga nema að sjá fram á öruggar tekjur, sem þýðir að starfsemi er ekki á fullum afköstum. Tæki og búnaður er ekki gangsettur að nýju, bátar ekki sjósettir. Fjármagn vantar til að koma rekstri af stað. Síðan má nefna að næsta vetur eru fyrirhugaðar fleiri lokanir en við höfum séð síðustu tíu ár. Þetta er hættulegt því við höfum verið að reyna að byggja upp áfangastaði sem taka á móti ferðafólki árið um kring og því getur þetta haft áhrif á flugmöguleikana. 

Góðar fréttir væntanlegar

Við erum að reyna að fá beint flug hingað og leggja mikla áherslu á vetrartímann. Þá verðum við að hafa gististaði opna. Til að laða að ferðaskrifstofur og flugfélög þurfum við að standa vaktina og hafa opið. Menn hafa verið duglegir en bakslag varð síðasta vetur. Vonandi vinnum við það til baka. Við sjáum miklar breytingar með tilkomu Niceair og flugs árið um kring. Búast má við meiri umferð og auðveldara verður að halda opnu.”

Arnheiður játar því að það sé komið örlagastund. Næsta vetur geti ráðist hvernig ferðaþjónustunni norðanlands vegni til framtíðar. 

„Þetta er spurning í hvaða átt við þróumst. Ætlum við að gefa eftir og verða sumaráfangastaður, eins og finna má víða í löndum í kringum okkur, þar sem öllu er skellt í lás á haustin? Það er auðvelt að verða þannig, fleyta bara rjómann af rekstrinum á sumrin, en þá byggist ekki upp öflug fjárfesting, ekki þekking hjá starfsfólki.” 

Fjárfestar eru ekki spenntir að setja peninga í svoleiðis. 

„Nei, þá færðu ekki fjárfesta. Það hefur verið okkar Akkilesarhæll – að ná ekki fjárfestum til okkar með áhættufjármagn.”

Áhrifin af komu Niceair eiga eftir að koma fram. Undirbúningsvinna stendur yfir. Arnheiður segir að verið sé að ræða við ferðaskrifstofur, skipuleggja pakkana og ljúka heimavinnunni fyrir veturinn. Erlendu ferðamennirnir eigi eftir að skila sér. Þegar hafa verið gerðir stórir samningar. Ég býst við að við förum að sjá áhrifin strax í október og þau verði mikil. Í raun þarf mjög lítið til að breyta miklu hérna. Við höfum séð með þeim ferðahópum sem komið hafa hingað með leigufluginu í gegnum Voigt Travel og Super Break að ferðaþjónustufyrirtækin hafa getað haldið opnu og veitt samfellda þjónustu. Það síðan dregur að lausaumferð. Þetta vindur því upp á sig. Ef vel gengur í sölunni hjá Niceair erum við að sjá gríðarlega miklar breytingar hérna fyrir norðan. Við erum þegar farin að beita okkur öðruvísi í markaðssetningunni, byggja upp áfangastaði í stað þess að hafa bara stoppistöðvar við hringveginn.”

Norðlendingar hafa verið ósáttir við að hversu hægt hefur gengið að koma á föstu flugi milli Akureyrar og borga erlendis. Nú eru miklar vonir bundnar við Niceair og frekari tíðinda gæti verið að vænta. „Það er auðvitað búið að ganga á ýmsu. Við erum ánægð með það leiguflug sem hingað hefur komið og svo Niceair. En þetta eru bara fyrstu skrefin. 

Við erum að fá hingað fleiri leiguflugfélög á næstunni og styttist í að við sjáum áætlunarfélög. Það var í raun orðið stutt í þetta fyrir faraldurinn en þá fór allt í biðstöðu. Nú eru hinsvegar margir að leita að sérstökum áfangastöðum, stuttum flugleiðum, að geta nýtt flugvélar um vetrartímann – og að komast í fámenni. Þetta er akkúrat það sem við bjóðum. Ég er mjög bjartsýn. Þegar ég var að byrja í þessu fyrir rúmum 10 árum var verið að byrja að selja Keflavíkurflugvöll en við sjáum nú hvert umfangið er orðið þar. Ég er mjög stórhuga varðandi Akureyrarflugvöll.” 

Arnheiður staðfestir að það sé að styttast í góðar fréttir en vill ekki skýra það frekar að sinni. 

Ferðaskrifstofur vilja komast beint á Norðurland

Út í heimi þætti víða mikill metnaður og árangur að svo fámenn þjóð starfrækti einn alþjóðaflugvöll, hvað tvo eða þrjá, eins og Norðlendinga og Austfirðinga dreymir um. Hér og nú erum við að tala um Akureyrarflugvöll. Er raunsætt að byggja upp og halda gangandi reglubundnu áætlunarflugi þangað að utan árið um kring? 

„Já, af því að um er að ræða flutning á erlendum ferðamönnum hingað. Það væri ekki raunsætt með innanlandsmarkað einan. Hann er of lítill. Samanlagður íbúafjöldi á Norðurlandi, og þó við bætum Austurlandi við, myndi það ekki halda uppi flugsamgöngum við útlönd árið um kring. Með erlendu ferðamönnunum er þetta mögulegt,” segir Arnheiður. 

„Tæplega 50 prósent erlendra ferðamanna sem til Íslands koma fara norður að sumri til en aðeins um 11 prosent að vetri til. Er það vegna þess að Norðurland er svona glatað að vetri til eða er það vegna þess að ferðamennirnir komast ekki? Þegar við kynnum Norðurland fyrir erlendum ferðaskrifstofum verðum við vör við mikinn áhuga en svo er spurt: Hvernig komumst við þangað? Þá skýrum við hversu flókið það er og þá draga menn sig í hlé. Hinsvegar um leið og við segjum frá því að það gætu opnast möguleikar á beinu flugi þá biðja allir um að fá strax að vita af því þegar það gerist. Ferðaskrifstofurnar eru alltaf að biðja um aðra „vöru” á Íslandi, þær eru að leita að einhverju nýju til að selja ferðafólki. Og ef þú býður alltaf það sama: Komu í gegnum Keflavíkurflugvöll, ferð um Gullna hringinn eða Vesturland, dvöl í Reykjavík og nágrenni, þá festist þú fljótt í sama farinu. Ákveðinn hópur vill þetta en aðrir markhópar vilja sjá annað og nýtt. 

Ferðaskrifstofur vilja geta boðið upp á nýjungar. Mikill áhugi er t.d á Demantshringnum og Norðurstrandarleiðinni í pökkum sem auðvelt er að selja. Það er því mikill áhugi á því að fljuga hingað beint norður allt árið.”

Kerfishugsun er hindrun 

Arnheiður er ekki ánægð með hversu lítinn kraft yfirvöld hafa sett í að skapa forsendur fyrir stórsókn í ferðamálum á landsbyggðinni. Hún segir að stærstu hindranirnar hafi verið í kerfinu. Eldsneytisverð á flugvellinum á Akureyri sé t.a.m gríðarlega hátt miðað við aðra velli og lengi hafi verið beðið eftir stækkun flugstöðvarinnar og á flughlaðinu. Hún hafi verið ánægð með að þrír ráðherrar ferðamála sem hún hafi unnið með hafi stutt flugið og Markaðsstofa Norðurlands hafi unnið vel með Isavia, Íslandsstofu og Austurbrú við kynningu á því. 

„En það er alltaf til staðar þessi vantrú – hvort þetta sé í rauninni hægt. Það er ekki settur nægilegur kraftur í verkefnið. Það dugar ekki að setja örfáar milljónir á ári í að fá alþjóðaflug norður. Ef menn hefðu sett meiri kraft í þetta og haft meiri trú á verkefninu, rutt hindrunum fyrr úr vegi, þá værum við komin lengra. Það er enginn vafi í mínum huga. Eftirspurnin er til staðar.”

Akureyringar og Norðlendingar telja sig eiga mikið inni þegar kemur að flutningi ferðafólks til landsins. Akureyrarflugvöllur geti orðið mikilvæg viðbót við þann vöxt sem orðið hefur í umsvifum á Keflavíkurflugvelli. Arnheiður segir að þetta snúi að sjálfbærni. Á sama tíma og talað er fyrir sunnan um offjölgun ferðafólks og að hægja þurfi á fjölguninni sé tómlegt um að litast á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurland allan veturinn, sumstaðar árið um kring. Margt sé að skoða og fólk er tilbúið að veita þjónustu en aðgengi vanti. 

„Ef við ætlum að þróa Ísland áfram sem ferðaþjónustuland getum við haldið áfram sömu stefnu, að halda flestum á suðvesturhorninu, reynt að fá meira út úr hverjum ferðamanni en gleyma öðrum landshlutum. Eða sagt: Vandinn felst í aðgengi, leysum hann, opnum Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll og þróum ferðaþjónustuna í kringum þá. Þetta myndi ekki taka neitt af suðvesturhorninu eða draga úr möguleikum Keflavíkurflugvallar heldur verða hrein viðbót. Það hefur verið of mikil hræðsla við það að ef fjármagn væri sett í flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum þyrfti það að vera á kostnað Keflavíkurflugvallar.” Arnheiður vill ekki lýsa sinni skoðun á því sem sumir hafa sagt um að tekjur af Keflavíkurflugvelli ættu að kosta uppbyggingu á Akureyri og Egilsstöðum. 

„Það er hinsvegar sérstakt að leyfa aðeins Keflavíkurflugvelli að blómstra á meðan hinum flugvöllunum er haldið í biðstöðu sem er ekki rekstrarhæf. Ekkert fjármagn er sett í markaðssetningu.” Hún segir að flugfélögin hafi vantað af því að þau hafi ekki verið sótt. 

„Það er auðvelt að sitja bara og segja: Þetta gengur aldrei. Það veit enginn um Akureyrarflugvöll. Menn geta bara komið í gegnum Keflavík. Ekki vera með vesen. En þá erum við að glata tækifærum. Það eru mögulegt að leita á önnur mið og fara í mikla sókn. 

Þetta er bara eins og menn ætli að horfa á fiskitorfuna synda framhjá.” 

Stöðnun án samfellds rekstrar

Mikið er í húfi að það takist að tryggja samfelldar komur ferðamanna til Norðurlands, halda opnu yfir veturinn. Hagsæld í ferðaþjónustunni norðanlands byggist á þessu. „Ef við náum ekki vetrarumferð sjáum við allt aðra þróun. Þá mætir þú að vori, opnar með lyklinum, dustar rykið af, og mokar síðan fólkinu í gegn, eyðir ekki miklu púðri í vöruþróun eða nýsköpun. Það verður bara stöðnun. Við verðum þá bara rútustoppistöð. Það er ekkert að því að reka rútustoppistöð en við viljum líka þróast. Það er margir frumkvöðlar á svæðinu og margar hugmyndir. Við getum selt snjóinn, böðin, matinn – og þjónustu fólksins, þessa miklu vetrarupplifun. Margir segja: Þetta er alvöru Ísland!” 

Arnheiður segir að ferðafólkið vilji sjá norðlensku fjöllin, fara á skíði, í jeppaferðir, sleðaferðir, hundasleðaferðir, fara í útreiðartúra í vetrarríkinu, baða sig úti og horfa á norðurljósin. Mikill vöxtur sé í sölu á skíðaferðum á Tröllaskaga en margir hafi haft litla trú á þeim möguleikum fyrir nokkrum árum. Nú séu í boði heimsklassa fjallaskíðaferðir með þyrlum og í kringum það mikil uppbygging í lúxusferðaþjónustu. Auðugir og áhrifamiklir ferðamenn komi til að njóta þessara ævintýra og dragi athygli að þessum stöðum. Góð dæmi um vaxtarmöguleikana í þessu eru Deplar í Fljótum og hótelið sem er verið að byggja á Grenivík. 

„Tröllaskaginn er fullur af skíðagestum frá febrúar til júnímánaðar. Margt af því þekkt fólk og áhrifaríkt sem sendir frá sér myndir sem laða aðra gesti að.” Arnheiður hefur ekki áhyggjur af þessum hópi, hann skili sér með einkaflugvélum. Það sé hinsvegar forsenda þess að almennir ferðamenn skili sér nægilega vel að haldið sé úti reglubundnu leiguflugi – og það sé á leiðinni. 

En hvað með Akureyri? Það er stórmerkilegt hversu stutt Akureyri er komin í hóteluppbyggingu. Ár og öld eru síðan byggt hefur verið þar sérhannað hótel. Víkur þessi þreytilegi svipur og við tekur nýsköpun?

„Já, það er ofboðslegur þrýstingur frá erlendum ferðaskifstofum að byggt verði nýtt 200 til 250 herbergja hótel á Akureyri að einungis tímaspursmál er hver tekur boltann,” segir Arnheiður en getur ekki staðfest að einhver hreyfing sé nú þar á, nema hugmyndir um byggingu minna hótels við skógarböðin. Krafan er um nýtt og stórt hótel, sem t.d gæti tekið við stórum hópum og hýst ráðstefnur. „Við hér á Markaðsskrifstofu Norðurlands heyrum stöðugt ákall eftir þessu. Erlendu ferðaskrifstofurnar vilja svona hótel á Akureyri.” 

Einhver viðkvæmni er gagnvart þessu í bænum. Þau sem starfrækja hótelin sem fyrir eru benda á að nýtingarhlutfallið mætti vera betra. Það er hinsvegar viðurkennt að ný og góð hótel eru seglar á komur ferðafólks. Gott dæmi um að er raunar Sigló Hótel á Siglufirði.

Að byggja upp þorpin er í anda sjálfbærni

Markaðsskrifstofa Norðurlands hratt af stað sjálfbærniverkefni síðastliðið haust og hélt stóran fund í vor þar sem fyrstu skref voru kynnt, niðurstöður greiningarvinnu með svissnesku ferðaskrifstofunni Kontiki, sem einmitt segist tilbúið í beint leiguflug ef áfangastaðurinn sé sjálfbær. Arnheiður segir að Ísland sé að mörgu leyti sjálfbær áfangastaður en það sé ekki vel kynnt. Við áttum okkur hreinlega ekki á möguleikunum. Mikið af matnum okkar sé t.d framleiddur á sjálfbæran hátt. Aksturinn á hringveginum sé hinsvegar skelfilegur og við ekki komin nógu langt með að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla. 

„Hluti af því að auka sjálfbærni væri að fá ferðamanninn í gegnum Akureyrarflugvöll, hann dvelji á Norðurlandi og sleppi þessum akstri, þar sem hann stoppar ekki mikið en tekur bara myndir. Við viljum að ferðamaðurinn dvelji hér, akstur verði í lágmarki, og að hann fljúgi til baka héðan. Þetta stuðlaði að sjálfbærni.” 

Líka er verið að skoða hvað sjálf fyrirtækin geta gert, eins og varðandi hleðslustöðvar, meðferð á rusli, sem oft er vandamál í minni sveitarfélögum: Hvar á ruslatunnan að vera og hver á að tæma hana? 

„Sjálfbærni felst líka í að byggja þorpin okkar upp aftur. Hjalteyri, Hauganes og Litli-Árskógssandur, þorp við Eyjafjörð, öll iða þau af lífi. Það stuðlar á heildina litið að sjálfbærni á Íslandi að fá fólkið aftur heim og byggja upp atvinnu þar.” 

Arnheiður telur ekki að „ferðaskömm” vegna umhverfisáhrifa dragi mjög úr ferðamennsku. Fólk láti áfram eftir sér að ferðast en finni aðrar leiðir. Fólk leiti frekar en áður uppi sjálfbæra áfangastaði, hæga ferðamennsku eins og bjóðist á Norðurstrandarleiðinni, fólk leiti eftir því að fljúga skemmri leiðir og lengi ferðirnar á milli fluga. 

En hvað þá með risastóru lystiskipin sem koma til Akureyrar og menga loftið í Eyjafirði? Búist er við um 200 skipum með um 200 þúsund ferðamenn til Akureyrar í sumar. Gengur þetta ekki þvert á hreina ímynd Eyjafjarðar og vilja til að byggja upp sjálfbært og umhverfisvænt samfélag að taka á móti svona mengandi stórskipum? 

Arnheiður vill ekki meina að svo sé. Þróunin sé sú að í framtíðinni verði skipin minni og umhverfisvænni og komið verði upp aðstöðu fyrir þau að sækja rafmagn í landi. Ekki sé hægt að horfa framhjá því að ferðafólk af lystiskipunum skili miklum tekjum. Flestir sem koma að landi á Akureyri fari í Mývatnssveit en aðrir haldi til í bænum og eyði miklum peningum. Þetta stuðli að sjálfbærni minni svæða, að heimafólkið geti lifað þar áfram og fengið tekjur af þjónustu sinni, mat og varningi. 

„Það eru sem sagt tvær hliðar á þessu máli. Ekki hægt að slá striki yfir skipin og segja að það gangi ekki að taka á móti þeim.”

Bylting framundan í greininni

Auðvitað er Arnheiður bjartsýn á möguleika ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Það eina sem vanti séu meiri flugsamgöngur. „Við erum að fá til okkar mikið af ungu fólki sem er menntað í greininni, hefur verið erlendis, kemur með sérhæfða þekkingu og nýjar hugmyndir og lausnir, býr til möguleika fyrir lítið frumkvöðlafyrirtæki, sem kannski ein hjón reka. Þá kemur einhver með nýja tæknilausn sem gerir það kleift að veita miklu meiri þjónustu fyrir minni tilkostnað. Ég held að við séum að sjá upphaf byltingar í þekkingu í greininni með nýju fólki. Á móti kemur að mikill missir er að þeim frumkvöðlum sem eru að draga sig til baka. Við það tapast þekking. En nýja fólkið kemur með spennandi hugmyndir og verkefni. Þessi þróun hefur þegar orðið á Suðurlandi og er nú að færast hingað norður. Nú er bara tímaspursmál hver verður fyrstur að byggja hótel á Akureyri og upplifunarsvæði.”

Að síðustu ræðum við ferðaþjónustuna í heiminum á miklum óvissutímum vegna heimsfaraldurs, stríðsins í Úkraínu og mikilla verðhækkana á olíu og aðföngum: 

„Það er mikil óvissa en allar tölur benda til mikillar ferðaþrár. Margt fólk er með meira en venjulega á milli handanna og tilbúið að kaupa draumaferðina sína, fara í ferð með stórfjölskyldu sinni, lengja ferðina. Rétt fyrir faraldurinn voru ferðirnar að styttast mikið. Ferðaviljinn er sem sagt til staðar en flugheimurinn í stórkostlegum vandræðum og það hefur áhrif á ferðahegðunina. Við á Íslandi erum hinsvegar að fá til okkar fólk sem vill ekki fara of nærri átakasvæðum í Úkraínu.” 

Við kveðjumst eftir að hafa horft yfir Hafnarstrætið, litskrúðugt og glatt ferðafólkið á göngugötunni. Möguleikarnir eru miklir á Norðurlandi. Nú er bara að sjá hverjir grípa tækifærin. 

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …