Samfélagsmiðlar

Góður undirbúningur forsenda velgengni

Velgengni Landnámssetursins byggist á snjallri meðferð á góðu söguefni en ekki síður vönduðum undirbúningi og þrotlausri vinnu frumkvöðlanna.

Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir

Kjartan og Sigríður Margrét á Landnámssetrinu

Það er auðvitað dálítið sérstakt að þessi mikla söguþjóð hafi ekki fyrir löngu fundið sjónræna og lifandi aðferð til að miðla ferðafólki um landið sögum af landnáminu og fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Íslendingar eru í einstakri aðstöðu til þess – með sagnaarf sinn. Auðvitað má lesa sér til í bókum, fræðiritum og Íslendingasögum, og sækja söfn sem geyma brot þessarar sögu, en það var ekki fyrr en með Landnámssetrinu í Borgarnesi að þessi miðlun landnámssögunnar hófst með mjög aðgengilegum hætti. Hjónin Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, eða Sirrý, hafa unnið mikið frumkvöðlastarf í sögumiðlun fyrir ferðafólk – fært þúsundum gesta dálitla þekkingu á landnámi Íslands og mörgum lykilpersónum Íslendingasagna, sérstaklega auðvitað Egils sögu Skallagrímssonar á Borg. 

Frásagnarlist fyrir ferðafólk

Að sjálfsögðu var það leikhúsfólk sem sá möguleikana í sagnaarfinum, menntað og þjálfað í að miðla sögum og skáldskap, búa til galdur á sviði. Þau Kjartan og Sirrý, bjuggu að mikilli reynslu úr leikhúsi og sjónvarpi, höfðu kynnst ferðaþjónustunni og áhuga ferðafólks á sagnaarfinum í hestaferðum um landið. Þau þurftu ekki endilega að láta fræðilegar kröfur um sannleiksgildi hefta sig í að segja sögurnar af Ingólfi Arnarssyni eða Skalla-Grími Kveldúlfssyni og Agli syni hans á Borg. Aðalatriðið var að setja saman sýningu og frásögn, lifandi túlkun á sagnaarfinum, til að fræða og skemmta áhorfandanum. 

„Hugmyndin varð til við eldhúsborðið heima,” segir Sirrý. Þetta var árið 2003. Þau ákváðu að ferðast hringinn í kringum landið og kynna sér menningartengda ferðaþjónustu, staði þar sem hlúð var að gömlum byggingum og söguarfi, í Stykkishólmi, Flatey, á Ísafirði, á Hofsósi og Siglufirði. Bæði ljúka þau miklu lofsorði á það sem gert hefur verið á þessum stöðum, sérstaklega á Síldarminjasafninu sem Örlygur Kristfinnsson kom á fót af mikilli eljusemi og smekkvísi.

En hvar átti að koma Landnámssetrinu á fót? Á Selfossi, í landnámi Ingólfs? Nei, niðurstaðan varð Borgarnes, á sögusviði Egils sögu Skalla-Grímssonar. „Landnáminu er svo vel lýst í Egilssögu. Þar eru árnar í Borgarfirði nefndar og bæir tilgreindir sem enn eru til og búið á þeim flestum,” segir Sirrý. 

Bæjaryfirvöld vildu raunhæfa áætlun og fengu hana

Þau hjónin segja að þeim hafi verið ákaflega vel tekið í Borgarnesi, bæjaryfirvöld höfðu einmitt leitað leiða til að nýta Egils sögu og tóku þess vegna eldhugunum fagnandi. Þau nefna sérstaklega Pál Brynjarsson, þáverandi bæjarstjóra, sem tók vel í ýmsar stórhuga hugmyndir þeirra – en hélt þeim við jörðina og bað um viðskiptaáætlun, raunhæfa áætlun um hvernig sögunni yrði miðlað. 

Fyrsta árið fór í að hanna sýninguna og gera viðskiptaáætlun, svo þurfti að fá fjármagn, koma húsnæðinu í lag og setja upp sýninguna. Ríkið lagði ekki fram stofnfé en það gerði sveitarfélagið Borgarbyggð og hjónin Ólafur Ólafsson í Samskipum og Ingibjörg Kristjánsdóttir. Bæjaryfirvöld gerðu kröfu um að þau hjónin sjálf bæru ábyrgð á rekstrinum og það þýddi að þau flyttust í Borgarnes, sem hafði ekki verið á dagskrá.  

„Við urðum að sýna að við tryðum á hugmyndina og þurftum að segja upp okkar góðu störfum,” segir Sirrý, sem hafði verið sjónvarpsfréttamaður en Kjartan leikstjóri. 

„Það eina sem ekki gekk upp í viðskiptaáætluninni var að aðsóknin varð margfalt meiri en við höfðum þorað að vonast eftir. Við áætluðum að hér yrðu fjórir til sex starfsmenn en þegar aðsóknin náði hámarki voru mest 35 að störfum. Á þessum degi eru níu á vaktinni,” segir Kjartan. 

Margbrennd, torgryggin og íhaldssöm

Einn lykillinn að velgengni Landnámssetursins er að það tókst að fá íslenskt ferðafólk þangað. Áður höfðu flestir brunað í gegnum Borgarnes eða staldrað stutt við á bensínstöð þar eða sjoppu. 

Nú var komin ástæða til að aka inn í bæinn niður að Brákarsundi, sem einmitt er nefnt eftir Þorgerði brák, keltneskri fóstru Egils, sem drukknaði þarna á sundinu á flótta frá snaróðum húsbónda sínum, Skalla-Grími. 

„Okkur var sagt í byrjun hversu mikilvægt það væri að laða að íslenskt ferðafólk og hafa opið allt árið til að ferðaskrifstofurnar gætu stólað á okkur,” segir Sirrý. Kjartan tekur undir þetta og segir að það hafi raunar verið Birgir Þorgilsson, fyrrverandi ferðamálastjóri, sem hafi gefið þessi ráð. „Við vildum fá ráð frá einhverjum sem þekkti ferðabransann en hefði þar enga beina hagsmuni. Ég sagði Birgi að við vildum búa til áfangastað sem helst væri upphafsstaður allra sem færu um Ísland, staðurinn þar sem fólk fengi innsýn í upphaf Íslandssögunnar. Þá sagði Birgir: 

„Þá þarftu að hafa þolinmæði og kjark til að hafa alltaf opið þó þú tapir í svona fjögur ár. Ferðaþjónustan er margbrennd, tortryggin og íhaldssöm.” 

Þetta gekk allt eftir.”

Leiksigrar á Söguloftinu voru mikilvægir

„Við vildum fá ferðamanninn til að taka beygjuna og aka í þessar fimm mínútur niður í gegnum bæinn að þessu dásamlega svæði þar sem er fallegt að horfa út á sjóinn,” segir Sirrý. En það var ekki nóg með að fólk gæti notið umhverfisins þarna á nesinu og fræðst um landnámið og sögu Íslendinga til forna heldur slógu leiksýningar í Landnámssetrinu í gegn: Brák í túlkun Brynhildar Guðjónsdóttur og Mr. Skallagrímsson, þar sem Benedikt Erlingsson sagði Egils sögu með sínum hætti. Þessar tvær sýningar hlutu mikið lof og voru verðlaunaðar. „Sýningar hjálpuðu okkur rosalega við að fá Íslendinga hingað,” segir Kjartan.

 „Á sumrin einbeitum við okkur að því að höfða til ferðamanna en á veturna reynum við að fá Íslendingana til okkar. Þessar sýningar á Söguloftinu hafa bjargað rekstrinum og veitingareksturinn sem við höfum byggt upp,” segir Sirrý. Súpan og hlaðborðið á Landnámssetrinu laða marga að. 

Og það er einmitt Sirrý sem á heiðurinn af heilsulínunni sem fylgt er á veitingastaðnum. Kjartan hefði frekar kosið sláturkepp en kál. „Konseptið í upphafi var að hafa mikið grænmeti og hollan mat. Þetta var fyrir vegan-bylgjuna. Nú hefur þetta vaxið mjög. Við erum með langborð með mörgum tegundum. Íslendingar hafa lært að meta þetta og koma mikið hingað niðureftir sérstaklega til að borða,” segir Sirrý. 

Góður undirbúningur og gott fólk

Við ræðum betur þá aðferð sem þau hjónin völdu til að segja sögur af landnámi Íslands. Þau fóru á fund menntamálaráðherra með þá hugmynd að segja landnámssöguna í öllum landshlutum, byggða á Íslendingasögunum. Ekki varð úr því en Vínlandssetrið í Búðardal er angi af þessu. Þá höfðu þau sannað fyrir öllum að svona lagað var mögulegt. Nú hafa aðrir tekið við keflinu og sett upp sýningar í sínu héraði. 

„Við finnum þennan áhuga útlendinga. Sögurnar eru okkar pýramídar. Þetta er svolítið eins og að pýramídi væri grafinn í sand og við að reyna að moka ofan af, gera hann aðgengilegan. Og aðferðin – að fá fólk til að setja á sig heyrnartól og hlusta á sögur – hefur gengið upp,” segir Sirrý og Kjartan bætir því við að auðvelt sé að fjölga tungumálum á gömlu iPodunum, sem gesturinn tekur með sér á sýninguna. Þessi litlu og einföldu tæki eru ekki framleidd lengur og hafa hjónin þurft að leita þau uppi á eBay. „Nú er þetta komið á 15 tungumál. Um leið og bætt er við tungumáli kemur hingað fólk sem það skilur. Áhugi ferðamanna á sögu og menningu hefur farið mjög vaxandi á síðustu árum.” 

Þau Kjartan og Sigríður Margrét hafa augljóslega náð miklum árangri í sínum rekstri en þar að baki liggur mjög mikil vinna. „Það sem mestu skiptir er góður undirbúningur,” segir Kjartan. „Það fór enginn að tala við okkur fyrr en við vorum búin með alla undirbúningsvinnuna. Þegar við fórum til Ólafs í Samskipum og Ingibjargar lá fyrir viðskiptaáætlun og allt hafði verið hannað.” 

„Nákvæmur undirbúningur skiptir öllu. Ekki má vanmeta tímann sem tekur að koma hlutum í framkvæmd, og leita ævinlega til þeirra bestu fyrir hvert verkefni – fá besta fólkið með sér,” segir Sirrý og Kjartan vitnar í tékkneska leikstjórann Milos Forman, sem var spurður hver galdurinn væri við að verða góður leikstjóri. Hann svaraði því að galdurinn lægi í því að fá til liðs fólk sem væri betra en hann sjálfur.

Varkár frá upphafi

Þau fóru varlega í byrjun og það skilaði sér. „Við höfðum ákveðið að opna í ágúst 2005 en fórum til Bretlands og hittum John Sunderland, manninn sem hannaði og setti upp víkingasýninguna í York – Jorvik Viking Center. Hann sagði að við hefðum gert allt rétt í undirbúningsvinnunni en nú væri komið að framkvæmdastigi og það væru mistök að ætla að opna eftir hálft ár. Það væri svo mikið ógert og tíminn skammur. Það ætti eftir að byggja hús, smíða innréttingar og setja upp sýninguna. Þetta myndi kalla á mikla yfirvinnu og allar áætlanir væru í uppnámi. 

Við hringdum í Pál bæjarstjóra og sögðumst ætla að fresta um eitt ár að opna.  

Síðan höfðum við samband við alla aðra. Ljósamaðurinn sagðist þá t.d geta hætt við að panta ljósin með flugi, það dygði að fá þau sjóleiðina. Spennustigið lækkaði og kostnaðurinn með. Það að ætla að flýta sér, fara fram úr sér, er oft það sem kollkeyrir svona verkefni,” segir Sirrý og bætir við að mikil reynsla Kjartans sem framleiðanda, eða pródúsents, að sýningum og uppákomum hafi komið sér mjög vel. 

Ætla að vaka áfram yfir setrinu

Þau Kjartan og Sirrý sjá fyrir sér að halda áfram að eiga og reka Landnámssetrið og fyrirtækið Sígildar sögur. Þau hafa ráðið framkvæmdastjóra, sem hefur á síðustu mánuðum létt af þeim mesta álaginu. Þau eru ekki lengur á föstum vöktum. Í fyrrasumar unnu þau hinsvegar alla daga. Svo hefur útlærður þjónn tekið að sér rekstur veitingastaðarins. Yfir og allt um kring hafa frumkvöðarnir svo auga með því sem fram fer. 

„Við eigum þetta bara áfram þangað til þetta verður vandamál barnanna okkar þegar við förum,” segir Sirrý. „Þetta gengur vel og við erum fyrir ofan núllið á ársgrundvelli en það er innkoman á sumrin sem borgar fyrir veturinn. Fjárfestar þyrftu miklu meiri arðsemi af sinni fjárfestingu en svona fyrirtæki getur skilað. Þetta er oft þannig með þessi litlu og meðalstóru frumkvöðlaverkefni sem fjölskylda hefur komið af stað að einungis er hugsað um að láta hlutina ganga upp, hægt sé að greiða laun og reikninga, halda húsum við.” 

Með mikilli vinnu hefur þetta gengið vel hjá Kjartani og Sirrý. Þegar sprengingin varð í ferðaþjónustunni myndaðist eigið fé. Þau gátu keypt hluti bæjarins og hjónanna Ólafs Ólafssonar og Ingibjargar Kristjánsdóttur. Nú er Landnámssetrið þeirra, tvö hús og tengibygging, en friðað Pakkhúsið sem hýsir sýningarnar er í eigu bæjarins og þau hafa afnot af því án leigugjalds. Það er framlag bæjarins enda hefur þetta framtak allt skilað góðum afrakstri og gerir áfram. Þau segja bæði að ekki hafi borið skugga á samstarf við Borgarbyggð. Það er líka augljóst Landnámssetrið hefur leitt af sér margt gott í Borgarnesi. Nú er ástæða til að taka beygjuna. 

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …