Hótelkrísa á Akureyri

Innan við 300 hótelherbergi eru í boði á Akureyri árið um kring og stefnir í vandræði með fjölgun ferðafólks í bænum.

Hótel KEA í miðbæ Akureyrar Óðinn Jónsson

Það hefur ótrúlega lítið gerst í hótelmálum á Akureyri á síðustu árum eða frá því að Icelandair-hótelið varð til með stækkun á húsnæði Iðnskólans við Þingvallastræti. Stærsta hótelið í bænum er enn Hótel KEA, sem á sínum tíma markaði tímamót og lýsti stórhug í bænum. Það var tekið í notkun 1944 en var síðar stækkað.

Nú fer lítið fyrir starfsemi Kaupfélags Eyfirðinga en KEA-nafnið lifir á fjárfestingarfélaginu sem tók ákvörðun um að reisa nýtt hótel á lóð við Hafnarstræti 80, þar sem áður var umferðarmiðstöð. Til stóð að byggja þar 150 herbergja hótel, sem hefði orðið það stærsta í bænum.

Í færslu á vef fjárfestingarfélagsins frá 2017 lýsir framkvæmdastjórinn stórhuga hugmyndum félagsins í hótelmálum í bænum og hversu þörfin sé brýn. Stefnt var að opnun vorið 2019. En svo kom Covid-19 og hætt var við hótelbygginguna. Þá var WOW fallið og óvissa ríkti um framtíð ferðaþjónustu.

Fyrir norðan segja hinsvegar margir að það hafi einfaldlega vantað stórhug til að trúa á framtíðarmöguleika ferðaþjónustunnar. Mörgum í bænum svíður að ekkert stórt, nýtt og myndarlegt ráðstefnuhótel sé í höfuðstað Norðurlands, þar sem starfræktur er háskóli og rannsóknarsetur í kringum hann.

Nú er Akureyri í þeirri stöðu að vera vanbúin því að mæta nýrri sókn ferðafólks inn á Eyjafjarðarsvæðið með áætlunarflugi Niceair sem hafið er og flugi þýska Condor næsta sumar. Fleiri flugfélög gætu viljað koma en hvar á að koma gestunum fyrir?

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, sagði við Túrista að menn hefðu einfaldlega ekki þorað að hugsa stórt í bænum. Það þyrfti bráðaaðgerð í hótelmálum á Akureyri: Byggja þyrfti nýtt 200 herbergja þriggja stjörnu hótel og eitt 100 herbergja fjögurra stjörnu hótel. „Þetta þarf að gerast ekki seinna en í gær!“ sagði Þorvaldur Lúðvík. Nú blasir hinsvegar við að ekkert nýtt hótel rís á Akureyri – hvorki í dag né á morgun.

Enn um sinn verður bitist um 288 heilsársherbergi. Hótel Edda bætist við um hásumarið með 204 herbergi og svo eru auðvitað gistiheimili og smáhýsi að finna í Eyjafirði og nærsveitum. En betur má ef duga skal. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, sagði í viðtali við Túrista að „ofboðslegur þrýstingur væri frá erlendum ferðaskrifstofum að byggt verði nýtt 200 til 250 herbergja hótel á Akureyri. Nú er að sjá hver verður fyrstur að taka boltann.

Viltu fá aðgang að öllum greinum Túrista? Bókaðu þá áskrift hér