Hraður bati í Portúgal

Portúgalska ferðaþjónustan tekur betur við sér eftir heimsfaraldur en víða annars staðar í Evrópu. Ólíklegt er þó að í ár komi sami fjöldi ferðafólks og á metárinu 2019.

Frá Porto ÓJ

Ferðaþjónusta er auðvitað mjög mikilvæg atvinnugrein í Portúgal. Árið 2019, það síðasta fyrir Covid-19, var metár. Þá komu 16,4 milljónir ferðamanna til landsins. Svo kom hryllingsárið 2019 þegar aðeins tæpar fjórar millljónir komu. Lítillega rofaði til 2020 þegar tveimur milljónum fleiri spókuðu sig um í Lissabon, Porto, á Algarve og víðar á ferðamannaslóðum landsins. Mikill bati blasir við á þessu ári þó fæstir geri ráð fyrir að metið frá 2019 verði slegið.

Hótel og gististaðir í Portúgal hafa í allt sumar tekið við góðum og vaxandi fjölda bókana. Búast eigendur þeirra við að um háannatímann verði bókanir álíka og á bestu árum fyrir heimsfaraldur. Reuters-fréttastofan hafði nýlega eftir Bernardo Trindade, formanni AHP, sambands hóteleigenda, að endurheimtin væri hraðari í Portúgal en víða annars staðar í Evrópu vegna fjarlægðarinnar frá stríðsátökunum í Úkraínu. Ferðafólki fyndist það öruggt í Portúgal. Framkvæmdastjóri AHP, Cristina Siza Vieira, sagði hinsvegar að hóteleigendur væru þó ekki bjartsýnir að útkoman á árinu í heild myndi slá ný met. Við tvennt væri að glíma: skort á starfsfólki og óðaverðbólgu. 

Ferðaþjónustan dró Portúgal upp úr efnahagslegum öldudal áranna 2010 til 14, eftir bankakreppuna, og fyrir heimsfaraldurinn svaraði hún til um 15 prósenta af landsframleiðslu. Starfsfólk á hótelum og veitingahúsum í landinu var nærri 267 þúsund á fyrsta fjórðungi ársins, 45 þúsundum fleiri en árið á undan, en um 33 þúsundum færra en á sama tíma 2019.  

Play flýgur milli Keflavíkur og Lissabon tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum. Kvöldvélin sem lenti í Keflavík á öðrum tímanum aðfararnótt laugardags var fullskipuð farþegum.