Íslenskar verslanir á Keflavíkurflugvelli

Eymundsson hefur flutt sig um set í Leifsstöð eru nú komnar tvær nýjar verslanir á gamla stað bókabúðarinnar.

Nýjustu búðirnar í Leifsstöð. MYND: ISAVIA

Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar og hönnunarverslunin Epal hafa opnað á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða aðra opnun svokallaðra pop-up verslana sem starfræktar verða á flugvellinum í tiltekinn tíma. Í lok júní voru veitingastaðurinn Maika‘i og verslunin Jens opnuð og hefur rekstur þeirra gengið vel að því segir í tilkynningu.

„Það er virkilega gaman að sjá þessi tvö íslensku fyrirtæki opna útibú á Keflavíkurflugvelli. Kormákur & Skjöldur og Epal eru skemmtilegar verslanir með eftirsóknarverðar gjafavörur fyrir bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn og passa því virkilega vel í verslanaflóruna á flugvellinum. Okkar markmið er að gera Keflavíkurflugvöll að enn skemmtilegri viðkomustað, að farþegar njóti flugstöðvarinnar vel síðustu klukkustundirnar fyrir flug og geti keypt áhugaverðar vörur á góðu verði, “segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslana og og veitinga hjá Isavia.

Þess má geta að um áramótin lokaði tískuvöruverslunin ARG Fashion í flugstöðinni en hún var á vegum norska fyrirtækisins Airport Retail Group. Frá lokun þeirrar búðar hefur ekki almennur fatnaður verið á boðstólum í flugstöðinni en á því verður breyting með verzlun Kormáks & Skjaldar.