Jetblue kaupir Spirit

Bandaríska flugfélagið Jetblue hefur fest kaup á keppinautnum Spirit Airlines og verður þar með fimmta stærsta flugfélag Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í frétt AP fréttaveitunnar en það var í gær sem forsvarsmenn Frontier drógu tilbaka tilboð sitt í Spirit.

Jetblue greiðir 3,8 milljónir dollara fyrir Spirit en sú upphæð jafngildir um 522 milljörðum króna. Til samanburðar er markaðsvirði Icelandair 69 milljarðar króna í dag.

Sameiginlegur floti félaganna tveggja telur 458 Airbus þotur en flugfélögin verða rekin í sitthvoru lagi þar til samruninn verður samþykktur af samkeppnisyfirvöldum vestanhafs.

Jetblue hefur verið flokkað sem einskonar mild útgáfa af lágfargjaldaflugfélagi á meðan Spirit telst til últra lágfargjaldafélaga en nýverið setti New York Times Icelandair í þann flokk félaga.

Þess má geta að Ben Baldanza, fyrrum stjórnarmaður Wow Air, var um tíma forstjóri Spirit en í dag situr hann í stjórn Jetblue.