Samfélagsmiðlar

Kallar eftir mati á skekkjunni í kortaveltutölunum

Notkun erlendra greiðslukorta er ein helsta mælistikan á gang mála í ferðaþjónustunni. Ferðaþjónustufyrirtæki hafa hins vegar fært viðskipti sín til erlendra færsluhirða og fleiri íhuga þann kost.

Skemmtiferðaskip á Akureyri

Ferðamanna á Akureyri.

Á sama tíma og notkun erlendra greiðslukorta eykst hjá bílaleigum, hótelum og veitingastöðum þá dregst hún saman hjá öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Í nýliðnum júní nam samdrátturinn 1,3 milljarði króna eða nærri þriðjungi í samanburði við júní árið 2019.

Þetta sýna tölur Rannsóknarseturs verslunarinnar en þar er erlend kortavelta hjá íslenskum ferðaskrifstofum, ferðaskipuleggjendum, bátaleigum og markaðssetningarfyrirtækjum sett undir hattinn „Ýmis ferðaþjónusta“ og hefur vægi flokksins minnkað hratt. Í júní 2019 var hlutdeildin 17 prósent af allri erlendri kortaveltu hér á landi en í nýliðnum júní var hluturinn rétt um tíund.

Skýringin liggur ekki aðeins í verðlagningu og stöðu krónunnar heldur aðallega í þeirri staðreynd að umsvifamikil ferðaþjónustufyrirtæki hafa fært viðskipti sín frá íslenskum færsluhirðum til erlendra. Og fleiri íhuga að gera slíkt hið sama líkt og Túristi hefur greint frá.

Tölur Rannsóknarseturs verslunarinnar byggja hins vegar eingöngu á upplýsingum frá Valitor, SaltPay, Rapyd og Netgíró. Á þetta er bent í gagnasafni rannsóknarsetursins en ekki í þeim tilkynningum sem sendar eru fjölmiðlum.

„Það ætti að koma skýrt fram að gögnin ná ekki til allrar kortaveltu íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja heldur aðeins þeirra sem skipta við íslenska færsluhirða. Um leið þyrfti að leggja mat á hvað vanti upp á. Erum við þar að tala um 10 eða 20 prósent?,” segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri, aðspurður um stöðuna.

Upplýsingar um kortaveltu hafa lengi verið ein helsta mælistikan á gang mála í ferðaþjónustunni og í ársbyrjun gerði ráðherra ferðamála tveggja ára þjónustusamning við Rannsóknarsetur verslunarinnar. Í tilkynningu sagði að sérstök áhersla yrði lögð á gagnavinnslu sem tengist neyslu ferðamanna hér á landi.

Í ljósi þess að ferðaþjónustufyrirtæki hafa nú þegar flutt kortaviðskipti sín til útlanda og fleiri íhuga að fara sömu leið þá má ljóst vera að upplýsingarnar sem fást úr núverandi gagnasafni verða takmarkaðri en áður var.

Hjá Rannsóknarsetri verslunarinnar er því unnið að því að fá upplýsingar um kortaveltu frá erlendum færsluhirðum og Skarphéðinn ferðamálastjóri segir mikilvægt að fá þær tölur inn í gagngrunninn. Hann efast þó um að það verði einfalt að fá þessar upplýsingar frá útlöndum.

Skarphéðinn bendir líka á annan annmarka við kortatölur Rannsóknarseturs verslunarinnar og það er sú staðreynd að erlend kortaviðskipti í íslenskum netverslunum er hluti af þeirri tölu sem eignuð er erlendum ferðamönnum. Jafnvel þó þarna séu í raun aðeins útlendingar að versla heiman frá sér við íslenskar netverslanir. Þessi velta fer undir flokkinn „Önnur verslun“ og nam veltan í honum um 1,2 milljörðum króna í júní. Hversu stór hluti af upphæðinni tengist netverslun er þó ekki vitað líkt og Túristi hefur áður fjallað um.  

Á það hefur einnig verið bent hjá forsvarsfólki íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja að ferðamenn nota greiðslukort í meira mæli en áður, til að mynda á kostnað bankamillifærslna. Þar með ætti því að fara varlega í að fullyrða að hver og einn ferðamaður eyði meiru í dag en áður líkt og Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda Grayline, fjallaði um hér á síðunni.

Nýtt efni

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …